Önnur umferð Heimsdeildarinnar í netskák fór fram síðastliðinn sunnudag. Andstæðingar dagsins voru ógnarsterkt lið Serba, sem hefur yfir að ráða ótrúlegum fjölda stórmeistara og annarra titilhafa. Lið þeirra er svo öflugt að þeir töpuðu ekki einni viðureign í deildinni á síðasta keppnistímabili, en létu svo undan síga í úrslitakeppninni, töpuðu fyrst gegn Rússum og því næst gegn grjóthörðu liði Úkraínu. Fyrirkomulagið þá var þannig að efstu fjögur lið tefldu útsláttarkeppni um titilinn.
Bæði lið tefla í leifturskákinni og hraðskákinni og var því teft í báðum deildum.


Leifturskákin
Teflt var á 32 borðum og voru bæði lið nokkuð vel skipuð.
Liðin tvö mættust á undirbúningstímabilinu í haust og hafði Ísland þá betur í leifturskákinni. Á því varð engin breyting að þessu sinni, en lið Serba sá aldrei til sólar og nokkuð þægilegur 41-23 sigur vannst.
Ísland er sem stendur í 1. sæti í leifturskákinni en einhver lið eiga enn eftir að ljúka sínum viðureignum.

Vinir okkar frá Úkraínu (Alexander Matlak) fylgdust að sjálfsögðu með keppninni og gerðu eftirfarandi myndband um viðureignina.
Hraðskákin
Serbar eru umtalsvert öflugri í hraðskák en leifturskák. Ljóst er að þeir hafa eitthvað skoðað síðustu viðureignir Íslands því þeir mættu með mun sterkara lið gegn okkur, en þeir gerðu gegn Ekvador í fyrstu umferð (hér). Alls mættu þeir með sjö titilhafa og talsverðan fjölda minni spámanna að auki. Þeir höfðu ekki í hyggju að tapa fyrir nýliðunum.
Lið Íslands er vissulega nýtt í keppninni, en það er ekki þar með sagt að það sé á flæðiskeri statt þegar kemur að mönnun. Hefðu Serbar „gúgglað betur“, þá hefði þeim mátt vera ljóst að breiddin í liði Íslands er gríðarleg. Líkt og áður sagði mættu Serbar með sjö titilhafa – Ísland mætti með þrettán. Meðalstig Íslendinga voru 2040 en meðalstig Serba aðeins 2001 stig. Teflt var á 39 borðum.

Þrátt fyrir tölfræðilega yfirburði Íslands, þurfti engu að síður að tefla viðureignina. Stig tefla jú ekki.
Úr varð gríðarlega spennandi keppni þar sem liðin voru hnífjöfn lengi framan af, en í stöðunni 27-27 (eða þar um bil) tókst Íslendingum að sigla fram úr og náðu okkar menn fimm vinninga forskoti sem var ekki látið af hendi. Niðurstaðan 41,5 – 36,5 grjótharður sigur Íslands.
Liðsheildin skóp sigurinn og gegndu allir mikilvægu hlutverki. Jafnt þeir sem unnu glæsilega sigra og núlluðu út andstæðinga sína, þeir sem gerðu jafntefli og héldu borðunum sínum sem og þeir sem töpuðu að þessu sinni en styrktu liðisheildina með því að færa samherja sína niður um borð og auðvelda þeim þannig að vinna andstæðinga sína.
Þessi gríðarlega mikilvægi sigur færði liðinu eitt stig og erum við enn í 1. sæti. Rússland og Úkraína eiga þó inni eina viðureign og gætu því enn náð okkur að stigum.
Liðsstjórar (TVS og SJB) þakka keppendum fyrir þátttökuna og benda áhugasömum á að enn er nóg pláss í liðinu. Næstu viðureignir (gegn Úkraínu og Rússlandi) verða gríðarlega stórar og veitir því ekki af að bæta verulega í liðið fyrir komandi átök. Það eina sem áhugasamir þurfa að gera er að fara á síðu liðsins á chess.com (hér) og smella þar á join.

Næst á dagskrá
Nú tekur við frívika í deildinni, en í næstu viku mætum við meisturunum sjálfum, Úkraínu! Líklega fer sú viðureign fram sunnudaginn 28. október, en það verður nánar kynnt í næstu viku.
DAGSKRÁIN Í VETUR (ÁÆTLUN)
| v/hefst | v/lýkur | Vika nr. | Umferð | Teflum við | Fer fram |
| 01. okt | 07. okt | 1 | 1 | Argentina Live Chess | 07. okt kl. 20 |
| 08. okt | 14. okt | 2 | 2 | Srbija Tim | 14. okt kl. 18 |
| 15. okt | 21. okt | 3 | Frí | ||
| 22. okt | 28. okt | 4 | 3 | Team Ukraine | |
| 29. okt | 04. nóv | 5 | 4 | Team Russia | |
| 05. nóv | 11. nóv | 6 | Frí | ||
| 12. nóv | 18. nóv | 7 | 5 | Ecuador Live Chess | |
| 19. nóv | 25. nóv | 8 | 6 | Team Slovakia | |
| 26. nóv | 02. des | 9 | Frí | ||
| 03. des | 09. des | 10 | 7 | Team Peru | |
| 10. des | 16. des | 11 | Adjustments | ||
| 17. des | 23. des | 12 | 8 | Úrslit 4 eftstu og 4 neðstu | |
| 24. des | 30. des | 13 | Frí | ||
| 31. des | 06. Jan | 14 | 9 | Úrslit 4 eftstu og 4 neðstu | |
| 07. Jan | 13. Jan | 15 | Frí | ||
| 14. Jan | 20. Jan | 16 | 10 | Úrslit 4 eftstu og 4 neðstu | |
| 21. Jan | 27. Jan | 17 | Adjustments |
TENGLAR
- Allar viðureignir Team Iceland til þessa: Hér
- Meðlimir Team Iceland: Hér
- Leifturskákin, staða og pörun: Hér
- Hraðskákin, staða og pörun: Hér
- Reglur LCWL: Hér


















