Lenka Ptacnikova heldur forystu sinni á opna Íslandsmóti kvenna eftir 4. umferð sem kláraðist í dag.
Lenka hafði svart gegn Oksönu Kryger sem ákvað að rugga bátnum ekkert með hvítu og bauð snemma jafntefli sem Lenka þáði.
Stigahæsta skákkona mótsins, Anastasia Nazarova var heppinn að sleppa með jafntefli gegn Alenu Ayzenberg. Ayzenberg var með kolunnið tafl en tókst ekki að landa vinningnum.
Iðunn hafði hvítt gegn Olgu Dolzhikovu. Olga veiddi Iðunni í taktíska gildru í miðtaflinu og kall fór í hafið.
Jóhanna tapaði klaufalega gegn hinni finnsku Lehtinen. Jóhanna var komin með kolunnið tafl, missti það líklega niður í jafntefli og síðan tap. Svekkjandi en svona getur skákin verið
Liss stóð vafalítið til vinnings peði yfir en náði ekki að nýta sér það og Sylvía sýndi mikla seiglu að landa jafntefli.
Guðrún Fanney byggði upp hættulega sóknarstöðu gegn Katrínu og braust í gegn í lokin.
Lenka heldur hálfum vinningi í forskot á toppnum.

Lenka mætir Olgu Dolzhikovu í 5. umferðinni. Lenku nægir einn vinningur til viðbótar til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn en Lenka ætlar sér væntanlega að vinna sigur á mótinu einnig!

















