Hjörvar Steinn Grétarsson náði í sinn fyrsta sigur á Heimsmeistaramótinu í Fischer-Slembiskák þegar hann lagði ríkjandi heimsmeistara, Wesley So, að velli á þriðja keppnisdegi.

Fyrir þennan síðasta keppnisdag í riðlunum var ljóst að Abdusattorov var kominn áfram í A-riðli. Aðal spennan var hver kæmist með honum áfram. Nepomniachtchi stóð þar bset að vígi eftir ótrúleg mistök Wesley So í gær þar sem hann mistúlkaði hrókunarregluna. Vonir So fólust í sigri á Hjörvari og svo að treysta á að vinna gegn Abdusattorov. Því miður fyrir Wesley þá hafði Hjörvar Steinn aðrar hugmyndir og í fyrsta skák dagsins lagði Hjörvar ríkjandi heimsmeistara í slembiskák að velli og kom þar af leiðandi í veg fyrir að So kæmist áfram og möguleikar hans á að verja titilinn úr sögunni.

Hjörvar fékk aktífa stöðu á kostnað peðastöðu en Hjörvar vann hinsvegar fljótlega peð og virtist standa betur. Wesley náði góðum millileik með 23.Bh3+ og náði peðinu til baka. Flestir hefðu þá ef til vill farið í varnargírinn en Hjörvar tefldi af krafti og bjó til frípeð sem kostaði Wesley eitt stykki biskup. Lítið var eftir af liði og vörn Wesley hefði átt að duga til jafnteflis.

Þá kom slæmur afleikur 55.Db8?? og Hjörvar átti allt í einu mát í þremur leikjum sem hann fann mjög fljótt!

Wesley náði að jafna leikinn í seinni skákinni en var jafnframt nánast úr leik við þessi úrslit.

Á sama tíma gjörsamlega slátraði Úzebekinn Nodirbek Abdusattorov hinum rússneska Ian Nepomniachtchi.

Hér kom 26.Hxd8+! og í kjölfarið var lítið um varnir. Abdusattorov vann ALLAR fjórar skákir sínar gegn Nepo, ótrúlegt!

Seinni einvígin í þessum riðli skiptu í raun litlu máli. So varð að vinna Abdusattorov sem hann reyndar gerði en á sama tíma hefði Hjörvar þurft að ná allavega jafntefli gegn Nepomniachtchi svo að So kæmist áfram. Nepo vann fyrri skákina með svörtu þannig að það var alltaf ólíklegt.

Hjörvar átti reyndar að ná jafntefli í seinni skákinni gegn Nepo sem hann góðfúslega viðurkenndi eftir skákina.

Lokastaðan í A-riðli

Abdusattorov og Nepo því áfram úr A-riðil. Hjörvar náði jafntefli í sínu einvígi við So og komst því á blað.

Í b-riðli var nokkur spenna fyrir lokadaginn. Carlsen, Nakamura og Fedoseev börðumst um tvö sæti. Carlsen og Fedoseev hófu daginn á því að nánast útkljá hvor ætti sénsinn.

Carlsen hefur sýnt veikleikamerki á mótinu og hann klúðraði vinningsstöðu gegn Fedoseev í fyrri skákinni.

43…Dc2? var ekki nógu góður leikur. Fedoseev sá patt-trikkið og lék 44.He7+ Ka6 45.Ha7+ Kxa7 46.De7+ og jafntefli samið þar sem hvítur gefur drottninguna í næsta leik með patti!

Seinni skákin var einnig sviptingasöm en Carlsen fórnaði tveimur peðum og líklegast mátti lítið útaf bregða en Carlsen fann réttu leiðina og vann góðan og gríðarlega mikilvægan sigur.

Þarmeð var Carlsen kominn áfram og því aðeins framundan einvígi Carlsen og Nakamura og barátta þeirra um hvor þeirra myndi vinna riðilinn og EKKI mæta Abdusattorov í undanúrslitum.

Í fyrri skák þeirra félaga virtist Magnus hafa yfirhöndina og með hættuleg færi. Þá var eins og Magnus hefði leikið af sér manni, Nakamura setti mikla pressu á Carlsen og virtist hafa hartnær unnið tafl. Eins og oft áður þá varðist Carlsen með kjafti og klóm og tókst honum að verjast manni undir og Nakamura vafalítið svekktur að klára ekki dæmið.

Seinni skákin var einnig skemmtileg. Nakamura fékk betri stöðu en lagði mikið á hana með mannsfórn. Nakamura virtist fá nóg fyrir manninn og náði að setja smá pressu á Magnus í endataflinu en það var ekki nóg.

Þessi niðurstaða þýðir að Magnus vinnur riðilinn með fleiri vinninga úr skákunum (ekki innbyrðisúrslit eins og við héldum á RÚV) og því eru það Carlsen-Nepo og Nakamura-Abdusattorov sem mætast á laugardaginn í undanúrslitum.

Greining Nakamura á einvígi hans við Carlsen:

Herlegheitin halda áfram á Hotel Natura á laugardaginn og sem fyrr hefjast skákir klukkan 15:00 og áhorfendur eru velkomnir og aðgangur ókeypis!

- Auglýsing -