Helgi Áss Grétarsson færist nær Íslandsmeistaratitlinum eftir níundu umferðina á Íslandsmótinu sem fram fór í kvöld í Mosfellsbæ. Helgi Áss gerði jafntefli við Aleksandr Domalchuk-Jonasson en á sama tíma lagði Hilmir Freyr Heimisson vin sinn Vignir Vatnar Stefánsson að velli. Vignir verður nú að vinna báðar skákir sínar sem eftir eru og treysta á að Guðmundur Kjartansson tapi ekki gegn Helga í 10. umferðinni á morgun.

Helgi gerði jafntefli gegn Aleksandr eins og áður sagði en eins og skákin þróaðist hefur Helgi vafalítið blótað sjálfum sér í hljóði. Helgi hafði nefnilega yfirspilað Aleksandr í miðtaflinu, gleypt nokkur peð og haldið í þau og virtist hafa fulla stjórn á stöðunni. Eins og oft hjá Helga var hann í tímahraki og missti tökin rétt fyrir lok tímamarkanna og hleypti Aleksandr í þráskák.

39..Dc1+ var nákvæmur leikur þar sem Helgi gat ekki lagt á flótta með kónginn 40.Kg2 vegna 40…Dc6+ sem vinnur riddarann á d7. Helgi hafði skömmu áður staðið til vinnings.

Ágætis niðurstaða kannski að því leitinu að það helst enn einhver spenna allavega fram í 10. umferðina!

Vigni mistókst að halda í við Helga og varð að játa sig sigraðann gegn félaga sínum Hilmi Frey. Byrjunin misheppnaðist eitthvað hjá Vigni og hann endað með kónginn á f8 og riddara á d8 í Sikileyarvörn og fór svo í erfitt endatafl eftir skiptamunsfórn. Hilmir tók sér tíma í úrvinnsluna en hafði að lokum sanngjarnan sigur.

Batamerki hafa verið hjá Guðmundi í síðustu umferðum eftir erfiða byrjun á mótinu. Guðmundur gæti orðið áhrifavaldur í 10. umferðinni þegar hann mætir Helga.

18…Rxe3! var flottur leikur hjá Gumma! 19.fxe3 d4 20.Dxb7 d3! tryggði honum betra tafl.

28…De3+ hefði klárað dæmið þar sem …Re4 eða Bc4!! í kjölfarið væru þrumuleikir. Hannes hélt sér einhvern veginn á floti og komst í endatafl þar sem Guðmundur var í raun búinn að missa taflið niður í jafntefli.

Í endataflinu urðu svo óþarflega miklar sviptingar þar sem taflið fór úr því að vera jafntefli í tapað aftur í jaafntefil o.s.frv. Á endanum komst Guðmundur aftur á réttu brautina og hafði sigurinn.

Hjörvar tefldi þétta skák gegn Lenku í Maroczy Bind. Hjörvar er farinn að nálgast sitt rétta form og er að laga það sem laga má eftir erfiða byrjun.

Loks varð jafntefli í skák Olgu og Bárðs. Olga beitti Kóngsbragði með hvítu, 1.e4 e5 2.f4 sem hefur ekki sést oft í Landsliðsflokki en Jón L. Árnason beitti þessari fornfrægu byrjun í nokkur skipti í Landsliðsflokki á síðustu öld.

 

Útsending umferðarinnar

Úrslit

Staðan

Vignir verður eins og áður sagði að vinna báðar sínar skákir og treysta á Guðmund í 10. umferðinni.

Pörun 10. umferðar

Í 10. umferðinni fær Guðmundur hvítt á Helga Áss á meðan Vignir þarf sigur með hvítu gegn Hannesi. Lenka og Olga mætast í kvennalandsliðsuppgjöri.

10. umferð hefst klukkan 15:00 á morgun, föstudag.

- Auglýsing -