Vignir Vatnar að tafli.

Vignir Vatnar Stefánsson er enn efstur í lokuðum GM flokki í Kronborg skákklúbbnum í Danmörku. Vignir hefur 5 vinninga eftir 6 umferðir og er efstur ásamt norska landsliðsmanninum Tor Frederik Kaasen. Með honum í flokknum eru Hilmir Freyr Heimisson sem hefur 3,5 vinning og Aleksandr Domalchuk-Jonasson sem hefur 2 vinninga.

Í fimmtu umferð mættust Hilmir Freyr með hvítt og Vignir Vatnar með svart og úr varð hörkuskák. Þeir félagar þrír verða að fá hrós fyrir að mæta til leiks gegn sínum bestu félögum og tefla til botns. Það læra allir mest á því!

Hilmir hafði hvítt og beitti hvössu afbrigði sem kennt er við Dubov sem hann gerði frægt með sigri á Karjakin árið 2020. Afbrigðið er enn teflt og sterkt vopn til að koma á óvart. Nýlega var t.d. boðið upp yfirferð á þessu afbrigði á Chessable af Jan Gustafsson.

Afbrigðið virðist enn hættulegt og Hilmir náði fljótlega í mjög vænlega stöðu eftir byrjunina. Fljótlega varð staða Hilmis að yfirburðastöðu.

Hvítur hefur sterkt miðborð, aukapeð og sterka sókn og svartur hefur auk þess takmarkað mótspil. Segja má að hvítur hafi hartnær unnið tafl! Vignir barðist hinsvegar áfram og gaf sig ekki. Varnarleikur Vignis bar ávöxt þegar Hilmir var slegin skákblindu í lokin og lék af sér heilum hrók. Þá var staðan líklegast orðin jafnteflisleg.

Aleksandr Domalchuk-Jonasson átti ekki góða skák gegn Sune Berg Hansen. Sasha virtist miss þráðinn í miðtaflinu og stórmeistarainn reyndi keyrði yfir hann. Ekki góð skák.

Aleksandr tapaði líka í seinni skák dagsins gegn Tor Frederik Kaasen sem er á góðu skriði, hefur bara tapað gegn Hilmi Frey. Aleksandr jafnaði taflið með svörtu en skiptamunsfórn/tap hans í miðtafilnu gekk líklega ekki upp og liðsaflinn taldi á endanum.

Hilmir gerði jafntefli í seinni skák dagsins gegn IM Nikolaj Borge. Hilmir hefur líkt og á Íslandsmótinu verið nokkuð óheppinn og skilið fullt af vinningum eftir á borðinu. Þessi skák var engin undantekning. Jafntefli varð niðurstaðan þar sem skiptamunur Hilmis náði ekki að telja. 57…Kd7 hefði gefið svörtum góða vinningsmöguleika en þar er hugmyndin að leppa hvítan á fjórðu reitaröð og lika svo …c5, …Kc6 og hvíta staðan hrynur.

Vignir gerði einnig jafntefli í seinni skák dagsins. Hann lenti í erfiðri vörn með hvítu en náði að redda sér fyrir horn í militum biskupum gegn Martin Haubro.

Vignir efstur ásamt Tor Frederik Kaasen með 5 vinninga af 6. Vignir er taplaus eins og Sune Berg og Kunin. Hilmir hefur 3,5 vinning en ætti að hafa fleiri miðað við taflmennsku en Aleksandr hefur 2 vinninga eftir að hafa gefið aðeins eftir í dag.

Sjöunda og áttunda umferð fara fram á morgun. Í sjöundu umferð hefur Aleksandr Domalchuk-Jonasson hvítt á Vigni en Hilmir Freyr mætir Jeppe Hald Falkesgaard.

- Auglýsing -