Alþjóðlegi meistarinn Dagur Ragnarsson (2328) hefur þegar tryggt sér sigur á Boðsmóti TR þótt einni umferð sé ólokið. Dagur vann báðar kappskákir sínar á laugardeginum og hefur fullt hús 6 vinninga af 6 mögulegum. Næstu menn hafa 4½ vinning og Dagur því öruggur sigurvegari!

Dagur hafði fullt hús eftir atskákhlutann en mætti Arnari Milutin Heiðarssyni (2076) í fyrstu kappskákinni.  Dagur beitti Prins-afbrigðinu gegn Najdorf sem leiðir oft til Maroczy-bind bindingarinnar svokölluðu sem getur verið erfið við að eiga. Sást það best á því að Arnar fór í arfavitlaust drottningarflan (sorry Arnar) Da5-h5-g6 og lenti bara í vandræðum. Skömmu síðar eftir smá taktísk viðskipti var Dagur manni yfir.

Ungu strákarnir voru góðir í þessari umferð. Adam Omarsson hefur verið á siglingu og hann gerði jafntefli við Björn Hólm Birkisson. Björn þurfti að verjast frumkvæði Adams framan af skák en eftir að Björn jafnaði taflið var lítið í boði fyrir báða.

Sigurbjörn Hermannsson er ungur skákmaður á uppleið. Skemmtilegt að benda á að að hann hefur hækkað vel á stigum 10 stigalista í röð, geri aðrir betur!

Engu að síður ætti Gauti Páll að leggja Sigurbjörn að velli í kappskák ef allt er eðlilegt. Gauti dettur hinsvegar stundum í „gamla-Gauta“ sem er villta útgáfan af Gauta. Gauti ætlaði vafalítið að tefla þessa skák traust og láta þann unga koma og gera vitleysurnar.

Þess í stað koma „gamli-Gauti“ á sjónarsviðið, tefldi Skandinavíska-vörn, fórnaði peði og svo manni. Samviskusamlegt Gauta-kiri.

Markús Orri Óskarsson og Josef Omarsson eru tvær efnilegir skákmenn til viðbótar sem áttust við í mikilli rimmu. Að þessu sinni virtist Josef vera að gera allt rétt. Josef með svart lokaði drottningu Markúsar inni sem kostaði mann, en þó fyrir tvö peð. Liðsaflinn og betri stjórn á svörtum reitum hefði átt að skila vinningnum í hús en í tímahraki kom fingurbrjótur hjá Josef.

40…Db5?? lenti í taktík sem greinarhöfundur kallar „Drottningarfelluna“ (e. Queen Sweep) 41.Hc8+ og svartur gafst upp.

Í sjöttu umferð snerist allt um skákina á efsta borði. Ef Dagur tæki hana væri hann þá þegar öruggur sigurvegari. Lengst af var skákin í jafnvægi, Dagur fékk örlítið betri færi snemma en eftir það var skákin í jafnvægi og hefði líklegast átt að enda með jafntefli. Dagur náði vinna peð en upp kom hróksendatafl sem ætti að vera jafntefli, 3 gegn 2 á sama væng.

Dagur náði að komast í endatafli með 2 gegn 1 og greinilegt að æfingar u25 úrtakshópsins undir stjórn Helga Ólafssonar er að skila sér. Þar voru t.d. í einum tíma tekin fyrir hróksendatöfl með 2 gegn 1 á sama væng í anda Petrosian – Friðrik Ólafsson 1959!

Gaman að sjá þegar stúderingar skila sér eins þegar það sem skákhetjur fyrri tíma skildu eftir á borðinu skilar sér til yngri kynslóða! Dagur náði eins og Friðrik að búa til vinning úr þessu endatafli þó fræðilegt jafntefli sé „rétta niðurstaðan“ í báðum tilvikum!

Önnur úrslit voru meira og minna eftir bókinni…

Röð efstu manna fyrir lokaumferðina

Skemmtilegt augnablik úr atskákinni á föstudeginum, mikið tímahrak og allir að fylgjast með.

Lokaumferðin er á morgun kl. 11.

 

- Auglýsing -