Vignir að tafli.

Vignir Vatnar Stefánsson endaði með sigurskák á SixDays Budapest May mótinu sem lauk í dag og endaði Vignir sem sigurvegari mótsins. Okkar maður endaði með 7,5 vinning af 9 mögulegum sem er glæsilegur árangur.

Sá er laut í dúk í dag var ungverski stórmeistarinn Adam Horvarth (2447). Vignir hafði hvítt og fékk eitthvað þægilegra tafl. Ungverjinn náði að snúa taflinu sér í vil í miðtaflinu og fékk betri stöðu og Vignir var í vandræðum. Eins og svo oft áður vann Vignir sig úr því og við tók hróksendatafl sem ætti að vera steindautt.

Vignir finnst greinilega gaman að tefla því hann hafnaði jafntefli í þessari stöðu! Og viti menn, Ungverjinn lék af sér og þurfti að þjást í hróksendataflinu sem Vignir náði að vinna úr og landa vinningnum.

Flottur mótssigur hjá Vigni og þar að auki hækkar hann um 21 elóstg sem er vel þegið! Framundan er mikið af taflmennsku hjá Vigni og vonandi stekkur hann yfir 2500 stiga múrinn fljótlega.

- Auglýsing -