Leikar eru farnir að hitna í Heimsmeistaraeinvígi Ding Liren og Dommaraju Gukesh. Síðustu tvær skákir hafa boðið upp á opnar stöður, sviptingar og alvöru vinningsmöguleika. Í dag kom það í hlut Gukesh að verjast áhlaupi Ding sem vann skiptamun í miðtaflinu eftir frumlega og skemmtilega byrjanataflmennsku.
Að leika Ba3 snemma í stað þess að skásetja biskupinn virðist vera orðið eitthvað einkenni á taflmennsku Ding í þessu einvígi en hann lék þessum leik nú í annað skipti með hvítu. Frumlegur enskur leikur og áhugaverð stöðubarátta.
Ding hafði enn ekki leikið e- né d-peði sínu fyrr en í 19. leik! Ding missti aðeins tökin og gaf peð.
Hér valdi Gukesh líklega vitlausan riddara með 27…Rac5? þegar 27…Rdc5 hefði verið betri eins og Timman benti á á X (twitter).

Gukesh lenti í kjölfarið í vandræðum með leppunina og Ding vann skiptamun. Þá sáum við aftur eitthvað sem er ekki að gerast í fyrsta skipti í einvíginu.
Ding bauð upp á þráleik með 38.Df2 Dd5 39.Dd4 Dg2 40.Df2 í stöðu sem er klárlega betri á hvítt þó vissulega sé einhverjar flækjur og mikið eftir. Aftur var það hinsvegar Gukesh sem neitaði þráleik! Þetta er allavega í þriðja skiptið sem Ding leitar að þráleik í stað þess að reyna að ýta stöðum til vinnings og í annað skiptið sem Gukesh velur að tefla áfram með verra þegar þráleikur var í boði!
Ding fékk einhverja sénsa á að halda betra tafli en Gukesh náði að nýta hættulegt frípeð til að ná skiptamuninum til baka og þvingað endatafl með mislitum biskupum og jafntefli því samið undir eins.
Enn er jafnt og Gukesh nær að verja svörtu mennina og því eiga þeir eftir jafn margir skákir með hvítu mönnunum í stöðunni 4-4.
Blaðamannafundur eftir áttundu skákina
Níunda skákin fer fram á fimmtudaginn. Skákirnar hefjast klukkan 09:00 á íslenskum tíma. Tefldar eru þrjár skákir og svo er frídagur.
- Heimasíða einvígisins
- Skákir einvígisins á lichess
- Skákir einvígisins á chess.com
- Ofurtölvurannsóknir Sesse
Stúderingar á skák #8:
Skákmenn eru eiginlega „yfirspilltir“ þegar kemur að aðgengi að efni frá heimsklassaskákmönnum. Hér að neðan eru nokkur dæmi um stúderingar á 8. skákinni. Þeir sem hafa verið að gera vídeó-samantektir hingað til eru menn eins og Carlsen, Caruana og Hikaru ásamt Kramnik tjá sig um gang mála!
Hikaru stórmeistari
Anish Giri


















