Fjölnismenn halda áfram sigurgöngu sinni og lögðu í kvöld sveit KR-inga að velli í sjöundu umferð Íslandsmóts skákfélaga 2024-25 í Rimaskóla. TG fengu líflínu í fallbaráttunni með óvæntum sigri á Breiðablik en á sama tíma missti TV vænlega viðureign niður í tap. Spennan er enginn í toppbaráttunni en baráttan á milli TG og TV virðist ætla að verða svívirðileg!

Sigur Fjölnis var með minnsta móti og KR-ingar bitu vel frá sér! Dagur og Oliver kvittuðu út tap Pauliusar á fyrsta borði. Eftirtektarvert var hversu viljugt 8. borð KR var að kveikja algjörlega í eigin stöðu!

TR vann sigur á TV einnig með minnsta mun en þar réðust úrslitin á 8. borði.

Ægir Páll hafði teflt eins og herforingi alla skákina með svörtu en þreytan virðist hafa ráðið úrslitum í lokin. Ægir stóð til vinnings fyrr í skákinni sem hefði gefið TV tvö stig sem hefðu líklegast dugað til að halda sveitinni uppi. Jafntefli hefði líka verið fín úrslit en Caissa hafði önnur plön! Í stað 73…Kg6 og skákin ætti að enda með jafntefli kom 73…Dxe4?? og allt í einu vinnur hvítur! Afdrifaríkt!

Sigur TG á Breiðablik verður að teljast hartnær ótrúlegur! Blikar unnu í gær stórsigur á sveit TR en töpuðu 1,5-6,5 gegn TG sem náðu sér þar í 2 stig sem gætu gert fallbaráttuna æsispennandi!

Fjölnismenn gætu fræðilega tryggt sér titilinn á morgun í fyrri umferðinni en baráttan um silfrið og bronsið er enn mjög opin. TR og KR mætast í lykilviðureign í þeirri baráttu á morgun en flest augu verða væntanlega á viðureign TG og TV þar sem bókstaflega ALLT er undir!!

Allar deildir tefla á morgun og þrjár umferðir eftir í öllum deildum.

 

- Auglýsing -