Menningarfélagið Miðbæjarskák hélt Skákmót Laugardalslaugar þann 6. júlí í alveg þokkalegu veðri, sem hentar afar vel á útiskákmótum. Þátttakendur voru 21, sem er eflaust ágætt um þessa miklu ferðahelgi sem fyrsta helgin í júlí er. Svo fór að þrír titilhafar röðuðu sér í þrjú efstu sætin. Efstur þeirra var alþjóðlegi meistarinn Dagur Ragnarsson, sem fékk 6.5 vinning af 7 mögulegum, en teflt var með tímamörkunum 4+3. Dagur var á Íslandi bara þennan eina dag, á milli ferðalaga heimshorna á milli til að tefla kappskákir gegn indverskum börnum.
Magnús Pálmi Örnólfsson og Róbert Lagerman, sem orðnir eru fastagestir á þessu ágæta móti, létu engan bilbug á sér finna og fengu 5.5 vinning í 2.-3. sæti. Fengu þeir 10 sundmiða hvor, og Dagur 20.
Anh Hai Tran náði eftirtektarverðum árangri, 4.5 vinning og 70 stig í vasann. Flott hjá honum, hann fékk ungmennaverðlaun, gjafabréf í Pylsuvagninn Laugardal. Útdreginn heppinn keppandi var Gunnar Þór Þórhallsson sem einnig fékk gjafabréf í Pylsuvagninn.
Miðbæjarskák fær ávalt dygga aðstoð við skákstjórn á þessu móti, en mótshaldarar þetta árið voru Björgvin Ívarsson Schram og Gauti Páll Jónsson. Sú aðstoð kom frá fyrrum forseta SÍ og núverandi framkvæmdarsjtóra, Gunnar Björnssyni sem tók myndirnar sem fylgja hér með fréttinni.
Með þökk til Laugardalslaugar fyrir skemmtilegt samsarf undanfarin ár!
Mótið á Chess-results.










