Íslensku sveitirnar töpuðu sínum viðureignum í 5. umferð Evrópumótsins landsliða í skák. Viðureignin við Austurríki í opna flokknum tapaðist full stórt miðað við gang mála og eftir að hafa byrjað vel gegn Litháen í kvennaflokki var heppnin ekki með okkur og tap með minnsta mun var niðurstaðan.

Opinn flokkur

Marcus Ragger hefur lengst af verið sterkasti skákmaður Austurríkis, hann daðraði við 2700-stiga múrinn á sínum tíma en eins og margir aðeins misst dampinn stigalega. Hannes Hlífar var aldrei í vandræðum gegn honum með svörtu mennina, Ragger valdi að fara í pósann og þar þarf ekki að kenna Hannesi neitt! Ragger fékk aldrei færi og öruggt jafntefli í hús.

Dagur vann skiptamun eftir ónákvæman leik hjá Horvath snemma úr byrjuninni. Svartur fékk þó ágætis spil á löngu skálínunni og á ögurstundu gætti Dagur sín ekki og lék afleik 21.Bd4?

Austurríkismaðurinn refsaði samstundis með 21…Rxe4! og svartur laus úr prísundinni. Þessi stunga hafði greinilega slæm áhrif á Dag sem fann ekki bestu leikina í kjölfarið í erfiðri en mögulega verjanlegri stöðu og tapaði skákinni.

Vænleg staða sem fór í súginn þarna, og líka hjá Vigni!

Vignir tefldi lengst af glimrandi með svörtu. Alekseenko hefur teflt á Áskorendamóti og því þéttur biti hér á ferð! Vignir fékk fínt tafl og sóknartilburðir Alekseenko voru hálfgert píp og Vignir með vörnina á hreinu. Eilítið vantaði uppá til að klára dæmið en Vignir missti aðeins þráðinn og svo kom því miður afleikur undir lok tímamarkanna og Alekseenko slapp með skrekkinn. Svekkjandi tap hjá okkar manni!

Úrslitin í skák Sasha skiptu því ekki máli á þessum tímapunkti. Sasha fékk ekki nóg frumkvæði til að vinna úr með stakt peð og því fékk svartur sjónarmun betra tafl en Sasha var kannski aldrei í hættu.

Blohberger fór yfir málin á YouTube rás sinni:

Lokatölur því 1-3 tap gegn Austurríki.

Næst er það sveit Finnlands

Kvennaflokkur

Litháar stigahærri á flestum borðum en þó höfðu við „stigayfirhönd“ á efsta borði.

Ótrúlega auðveldur dagur hjá Lenku!

Lenka setti andstæðing sinn strax í bobba í byrjuninni með góðum undirbúningi.

Ótrúlegt en satt þá er svartur kominn með aðeins betra eftir hinn lúmska 7…Da5+!? og hvítur er í smá vandræðum. Ef 8.Rbd2 kemur 8….Rb4 og ef 8.Dd2 kemur 8…Bxf3 og hvítur fær ljóta peðastöðu. 8.c3? var slakur og Lenka fékk algjört yfirburðatafl og vann auðveldan sigur.

Ekki góður dagur hjá efsta borði Litháen!
Hallgerður í WIM áfangafæri

Hallgerður hélt áfram sínu góða gengi og gerði nokkuð auðvelt jafntefli gegn hinn þaulreyndu Camille Baginskaite.

Hallgerður undirbjó praktískt og traust afbrigði og var staðan upp í 15. leik meira að segja í undirbúningi. Baginskaite náði að leysa sín vandamál og á endanum einfaldaðist taflið í dautt hróksendatafl og jafnteflið samið.

Staðan góð hér en því miður voru þá þegar stöðurnar erfiðar á 3. og 4. borði.

 

Neðri borð Litháen reyndust okkur erfið.
Skák Guðrúnar tapaðist

Guðrún var með fínt tafl að vanda úr byrjuninni. Í miðtaflinu komu hinsvegar slæm stöðulega mistök.

13…c5? grefur undan góðri peðakeðju svarts b7-c6-d5 sem vinnur vel gegn hvítreitabiskup hvíts. Eftir …c5? myndast reitur á b5 og d5 peðið veikist og allt tónar þetta vel við hvítreitabiskup hvíts. Stöðuleg mistök sem fara í reynslubankann góða!

Andstæðingur Guðrúnar tefldi framhaldið mjög traust, biskupinn á b8 var algjörlega úr leik og hvítur byggði upp af mikilli þolinmæði og úrslitin eiginlega ljós. Tap hér og viðureignin jöfn.

Iðunn virtist vera að bjarga málunum. Eftir erfiða vörn í miðtafli var Iðunn búinn að vinna peð til baka (sem hún lenti undir) og vonir svarts virtust vera að fjara út. Varnaruppstilling Iðunnar var passíf en virtist halda. Mögulega hefði verið betra að virkja hrókana betur en engu að síður átti hvítur líklega að halda en Iðunn var sleginn skákblindu.

Hér hefði 59.Dc2 haldið í horfið en Iðunn missti af að eftir 59…H5d2 getur hún tekið með drottningu á d2, aðrir leikir tapa. Tíminn fjaraði út og því miður voru ekki aðrar varnir í stöðunni. Aftur svekkjandi tap.

Tap með minnsta mun.

Næst á dagskrá er Skotaland. Stigalágar stelpur á flestum borðum en stórmeistari á efsta borði þar sem við höfum þó hvítt.

- Auglýsing -