
Glæsilegu Skákþingi Norðlendinga 2025, sem jafnframt var 91. mótið í röðinni og hluti af 90 ára afmælishátíð Skákfélags Akureyrar, lauk um helgina í Brekkuskóla á Akureyri. Mótið var haldið við frábærar aðstæður, og tefldar voru 11 umferðir með umhugsunartímanum 15 mínútur + 10 sekúndur á leik. Alls tóku 24 keppendur þátt.
FM Jón Kristinn Þorgeirsson varð skákmeistari Norðlendinga 2025 eftir að hafa haldið forystu frá upphafi mótsins og aldrei látið hana af hendi. Hann endaði efstur með hálfum vinningi á undan alþjóðameistaranum AM Davíð Kjartanssyni.
Lokastaðan er aðgengileg á Chess-Results.
Á laugardagskvöldinu fór fram hraðskákmót þar sem Símon Þórhallsson náði að verja meistaratitil sinn frá fyrra ári.
Lokastaða hraðskákmótsins er einnig aðgengileg á Chess-Results.
Skákfélag Akureyrar þakkar Brekkuskóla kærlega fyrir frábæra aðstöðu og öllum styrktaraðilum, Íslandsbanka, Arion banka, Landsbanka og Hafnasamlagi Norðurlands, fyrir þeirra mikilvæga stuðning við mótshaldið.