Íslenska sveitin í opnum flokki Evrópumóts landsliða vann glæsilegan sigur á þéttri sveit Ísrael í 8. umferð mótsins. Lokatölur urðu 2,5-1,5 Íslandi í vil þar sem Vignir Vatnar vann eina sigurinn í viðureigninni, aðrar skákir enduðu með jafntefli. Kvennalandsliðið tapaði gegn Belgíu 1-3 og var tapið og stórt miðað við gang mála í viðureigninni.

Opinn flokkur

Við upphaf umferðar, glingurgellan sem stundum teflir með Ísrael og Romanov sem er liðsstjóri, bjó áður lengi í Noregi

Ísraelska sveitin þétt, allt 2500+ stórmeistarar og Maxim Rodshtein þéttur á efsta borði, strákur sem hefur farið yfir 2700 elóstig. Rodshtein lagði Vigni að velli á ólympíuskákmótinu í Búdapest en nú var komið að stund hefndarinnar!

Flott mót hjá „Nesa“

Hannes Hlífar hefur verið einstaklega traustur nú í seinni hluta mótsins og að öðrum ólöstuðum verið okkar besti maður, annað mótið í röð! Hannes hafði hvítt gegn Yahli Sokolovsky. Hannes tefldi mjög traust, fékk reyndar lítið með hvítu en jafnteflið var öruggt og aldrei í hættu.

Vignir greinilega klár í slaginn….sjáið þessar byssur!!

Vignir setti okkur í mjög góða stöðu í viðureigninni með því að ná í sigur gegn Rodshtein. Vignir er orðinn gríðarlega sjóaður í Catalan-byrjuninni og kann að skipta um afbrigði og koma á óvart og þekkir líka byrjuninni frá báðum hliðum. Afbrigðið sem Rodshtein valdi hafði Vignir sjálfur teflt áður og þekkti því ákveðnar leiðir og línur sem svartur ætti að forðast.

Fór svo að Vignir fékk mjög þægilegt rými. Rodshtein fann fyrir plássleysinu og sá sig knúinn til að veikja stöðuna með framrás f-peðs síns og svo í kjölfarið með skiptamunsfórn en þetta var allt í algjörri örvæntingu enda staðan að hruni komin.

Þéttur sigur hjá Vigni og mikilvægur í viðureigninni!

Gummi góður að vanda!

Guðmundur hirti peð sem Gorshtein gaf í byrjuninni. Snemma var ljóst að bæturnar voru ófullnægjandi. Guðmundur fékk þægilega stöðu peði yfir og engin teljandi vandræði. Þá komu nokkrir ónákvæmir leikir hjá Gumma. Óþarfi var að gefa hvítreitabiskupinn sem hélt stöðunni vel saman á drottningarvæng.

Erfitt var að gera eitthvað með umframpeðið og líklegast hefði Gummi bara átt að bíða spakur en hann fórnaði skiptamun sem var líklegast óþarfi og opnaði harðlæsta hurð að vinningsmöguleikum á hvítt, sem voru ekki til staðar. Sem betur fer náði Gummi að virkja drottningu sína og hvítur náði ekki að láta skiptamuninn telja og jafntefli samið.

Sasha innsiglaði sigurinn með vandaðri vörn að vanda!

Nú var ljóst að viðureignin myndi ráðast á 4. borði. Ísland komið með lágmark jafntefli en jafntefli í skákinni á fjórða borði eða betur myndi tryggja sigur í viðureigninni. Sasha var undir stöðugri pressu alla skákina en aldrei kannski í teljandi taphættu þó staðan væri óþægileg. Hvítur hafði umframpeð í endataflinu en það var tvípeð á a-línunni.

Varnir Sasha héldu og þegar hann lék…

53…Hd4! til að einfalda taflið var þetta nánast í höfn. Eftir …Kg6 hjá Sasha leit ég á stöðuna og Helgi líka, gengum svo aðeins frá og kinkuðum báðir kolli sáttir…“þetta er steindautt“ hugsuðu báðir og orð voru óþörf, sigurinn í höfn!

Traust viðureign þar sem taphætta var lítil sem engin og 2,5-1,5 sigur vannst á þéttri sveit, meira svona takk…eitt tækifæri til en það eru Danir í lokaumferðinni!

Kvennaflokkur

Belgísku stelpurnar voru stigahærri á flestum borðum en klárlega viðureign þar sem stelpurnar áttu að geta strítt aðeins stigahærri þjóð. Efsta borð Belga hvíldi en Vanduyfhuys í banastuði með 5,5 af 7. Hallgerður upplifði smá spennufall eftir 7 skákir í röð og WIM áfangann og var hvíld í þessari viðureign.

Lenka náði að redda jafnteflinu eftir bras í miðtaflinu.

Byrjanaundirbúningur gekk almennt vel upp í þessari viðureign, öll borð fengu upp það sem var undirbúið og þær áttu von á. Lenka hafði undirbúið að tefla gegn fjögurra-riddara tafli í sikileyjarvörn og var líka klár í Sveshnikov. Tefldi Lenka nýmóðins afbrigði þar sem riddarinn fer á b1 og hvítur fær trausta stöðu í kjölfarið.

Sú belgíska virtist hafa betur í miðtaflinu og Lenka lenti í krappri vörn en virtist meira og minna redda sér með drápinu á d6. Jafnteflið komst svo í höfn.

Andstæðingur Iðunnar tefldi mjög vel

Skandinavinn var planið og það kom upp hjá Iðunni. Andstæðingur hennar tefldi glimrandi skák og planið með Rd1-e3 og c4 var mjög menntað! Endurbótin á svart liggur líklega í að leika …a5 til að stoppa b4 og geta svarað c5 með …b6 strax. Eins og skákin tefldist var svatur einfaldlega kraminn á drottningarvæng.

0,5-1,5 fyrir Belgíu.

Tvær skákir eftir og héldum við í vonina, Jóhanna hafði vænlegt tafl á öðru borði en Guðrún var í smá vörn á þriðja borði.

Jóhanna fékk mjög vænlegt tafl en missti þráðinn

Drottningarindverjinn var skoðaður vel fyrir skák og kom upp. Jóhanna tefldi traust en greip frumkvæðið þegar færi gafst með …Ba6 og …Re5. Hvítur var kominn í kaðlana, kóngsstaðan veikt með uppskiptum á hvítreitabiskupum. Eina sem vantaði var rothöggið. 25…d4! eða 25…Dg4!? hefðu verið sterkari en 25…Df5 sem var leikið.

Hér fór þráðurinn að tapast, frumkvæðið gufaði upp og uppskipti voru bara hvítum í hag, gerðu svarta d-peðið sem var styrkleiki nú að veikleika. Hvíti kóngurinn kom í skorðun og svo tapaðist peðið og endataflið í kjölfarið. Svekkjandi tap og ljóst að möguleikar á stigum voru úr sögunni.

Mjög jákvæðir sprettir hjá Guðrúnu á þessu móti en líka mikið að leggjast inn í reynslubankann!

Guðrún var þegar hér var komið við sögu búin að rétta úr kútnum. Guðrún missti algjörlega þráðinn snemma í miðtaflinu og fékk verra tafl og snemma í endataflinu var það mjög erfitt líka. Eftir að Goossens tók með hrók á b5 tefldi Guðrún framhaldið nokkuð vel og náði vinningssénsum.

Í lokastöðunni og fyrr á hvítur góða möguleika með því að setja hrókinn fyrir aftan peðið. Hxd5xg5 var líka gott færi sem hvítur sleppi. Því miður hafði Goossens vit á því að krefjast jafnteflis þar sem sama staðan kom upp þrisvar og krafan rétt.

1-3 tap en eins og áður sagði, gaf ekki alveg rétt mynd, Jóhanna og Guðrún áttu bullandi vinningssénsa í sínum skákum á tímabili.

Andstæðingur lokaumferðinnar er lið Mónakó, ágætlega þétt sveit en keppendur þeirra almennt í eldri kantinum.

Azerar settu spennu í opna flokkinn með því að leggja Úkraínu að velli. Úrslitin ráðast því í lokaumferðinni í opna flokknum. Í kvennaflokki eru Pólverjar líklegastar, vinna með því að leggja Azera í lokaumferðinni.

Í gær var boðið upp á nýjung á Instagram-síðu skáksambandins, Ingvar Þór Jóhannesson liðsstjóri kvennaliðsins tók svokallað DIML (day in my life) eða bakvið tjöldin á EM. Hægt er að nálgast það hér -> Instagram DIML á EM

- Auglýsing -