Fyrri átta manna úrslit á Íslandsmóti Símans í Netskák fóru fram í gærkvöld sunnudaginn, 2. nóvember. Í gær mættust annars vegar stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson, sem ttefldi frá Portúgal þar sem hann teflir á alþjóðlegu móti, og hins vegar FIDE-meistarinn Ingvar Þór Jóhannesson, sem tefldi frá Budva í Svartfjallalandi, þar sem hann gegnir þjálfarastöðu ungmennalandsliðsins. Vignir náði góðum sigri þrátt fyrir að hurð hafi skollið nærri hælum í einhver skipti.

Síðari viðureignin kvöldsins var beðið með eftirvæntingu en þar mættust bræðurnir Bragi og Björn Þorfinnssynir. Flestir bjuggust við sigri Björns en Bragi kom mörgum á óvart og vann örugglega.

Tefld voru sex skák einvígi og nóg að ná 3½ vinningi til að sigra. Að þessu sinni sáu þeir Hilmir Freyr Heimisson alþjóðlegur meistari og FIDE-meistarinn Sigurbjörn Björnsson um beinar lýsingar og fórst verkefnið vel úr hendi.

Hægt er að fylgjast með á Sjónvarpi Símans eða á YouTube rás RÍSÍ eða Twitch Rási RÍSÍ

Vignir – Ingvar

Vignir hafði hvítt í fyrstu skákinni og hóf taflið með 1.g3, eitthvað sem hann hefur notað nokkuð í hraðskák og einstaka kappskák undanfarið. Ingvar tefldi öruggt og svartur var komn með betra tafl í miðtaflinu en ekkert til að nýta nógu vel. Endataflið hefið átt að vera steindautt en Vignir náði að töfra fram einhvern svíðing í tímahrakinu. Ýmsir sénsar fyrir Ingvar að tryggja jafnteflið, t.d. …Hd3+ áður en hann lék …Hf3 og svo var 60…Dxb4? lokamistökin…

Svartur virðist geta skákað á a-línunni, a1, a2 og a8 og g-línunni eins og þarf og hvíti kóngurinn sleppur ekki, skemmtilegt þráskákarþema.

Önnur skákin var slakasta skák Ingvars að mörgu leiti en samt var hann að fullu inni í skákkni þó Vignir hefði haft yfirhöndina.

Enn var séns með 32.Hf5 e6 33.Hg5+ og svo Bf3 og endataflið ætti að vera nokkuð dautt.

Staðan orðin 2-0 fyrir Vigni og staðan erfið fyrir Ingvar í svo stuttu einvígi.

Þriðja skákin var fjörug, líklega sú skemmtilegasta í einvíginu, Ingvar tefldi Benoni og ætlaði sér sigurinn. Strax í byrjun kom smá „póker“

Hefði Vignir teflt við „óbreyttan“ skákmann hér hefði hann leikið 8.Ha3!? hugmynd sem hann hefur notað með ágætis árangri. Vignir veit hinsvegar að Ingvar veit, Guðrún Fanney hefur t.a.m. notað þessa hugmynd í ferðinni og Vignir hefði haft rétt fyrir sér, Ingvar var vel undirbúinn fyrir Ha3 hugmyndina!

Vignir hafði lengst af betra tafl en Ingvar reyndi að sprikla.

Hér voru komin ákveðin vandamál í borðin hjá Vigni og Ingvar eygði möguleika á að ná að minnka muninn. Vignir skákaði í borði 33.Ha8+ og hér varð Ingvar að finna leið úr þráskákinni til að reyna að tefla til vinnings. Svartur reyndi en ekkert gekk og ef eitthvað er missti hvítur af augnablikum til vinnings.

2,5-0,5 í hálfleik og nú góð ráð dýr fyrir Ingvar. Að þessu sinni lék Ingvar 1.c4, ætlunin var í raun að prófa drottningarbragðið hjá Vigni og var Ingvar með hugmynd tilbúna þar…1.e4 í skák númer tvö var að mörgu leiti klaufaskapur, ætlunin var að „testa“ drottningarbragðið fyrst.

Vignir tefldi glannalega með svörtu og Ingvar hirti peð sem var nokkuð heilsusamlegt, bætur svarts líklega ekki nægar. Góður plús í tölvuforritum en úrvinnslan ekki sem best, 17.e4 hefði t.a.m. gefið algjöra yfirburðastöðu. Vignir fór að ná einhverju mótspils-nuddi og Ingvar missti móðinn þegar tók að saxa á tímann og Vignir kláraði dæmið.

Lokaniðurstaðan 3,5-0,5 og Vignir áfram en miðað við gang mála í skákunum hefði Ingvar hæglega getað gert þetta að hörkueinvígi en Vignir einfaldlega sterkari á svellinu í þetta skiptið.

Skellt var í „watch party“ í Svartfjallalandi, umferð að baki og frídagur daginn eftir hjá krökkunum.

Bragi – Björn

Flestir áttu von á sigri Björns í þessu einvígi. Björn er hærri á hraðskákstigum og hefur verið að ná góðum árangri í hraðskák undanfarin misseri og nýbúinn að tefla á Evrópumóti Taflfélaga á meðan Bragi hefur teflt minna. Bragi hinsvegar tók þessa spá og tróð henni lóðbeint upp í trompetið á spámönnum!

Mögulega gerði Björn smá mistök í fyrstu skákinni. Björn hefur aðeins verið að víkka sjóndeildarhringinn í byrjunum og bæta við sig kóngspeðinu 1.e4. Í fyrstu skákinni virtist Bragi hinsvegar betur kunnugur byrjanatýpunni og peðsfórn Björns gekk ekki alveg upp. Að mati ritstjóra hefði Björn átt að halda sig við sín góðu hraðskák vopn, pýramída-kerfið góða og tefla beint af augum.

Bragi hékk á umframpeðinu og var tilbúinn í allt sprikl Bjössa og skiptamunsfórn í örvæntingu dugði ekki til. Ákveðinn „statement“ sigur strax í fyrstu skák hjá Braga.

Krakkarnir voru ekki síður límdir við einvígi bræðranna í Svartfjalllandi!

Bragi var nokkuð klókur í einvígisskák númer tvö. Bragi náði Birni í stöðutýpu sem Bjössi greinilega þekkti ekki nógu vel og Bragi fékk algjört yfirburðatafl. Úrvinnslan hefði mögulega getað verið hnitmiðaðri en Bragi virtist alltaf á leiðinni að vinna þessa skák.

Staðan 2-0 fyrir Braga og eins og fyrir Ingvar, góð ráð dýr fyrir Bjössa. Björn ákvað skynsamlega að fara aftur í „ræturnar“ 1.d4 og pýramída-kerfið! Bragi „kallaði“ blöff hjá Birni snemma skákar og tók peð á g2. Bæturnar líklega ekki upp á 10 í einkunn en …h5 hjá Braga líklega of fljótfær og Björn fékk hættuleg færi og fórnaði á g6, fékk peðið til baka og hættulega stöðu.

Björn náði ekki að nýta færi sín og lék svo af sér hrók, tvo leiki í röð…Bragi nýtti seinni sénsinn!

Fjórða skákin stefndi í að verða möguleg byrjun á einhverskonar endurkomu Björns. Hann var peði yfir og eiginlega með kolunnið tafl. Þetta var hinsvegar ekki dagur Björns, á ögurstundu missti hann þráðinn og skyndilega náði Bragi að laga stöðuna og peð hans orðin óstöðvandi upp úr nánast engu.

4-0 fyrir Braga, ótrúleg niðurstaða sem engin átti von á!

Útsending kvöldsins:

Seinni hluta átta manna úrslita fer fram 9. nóvember og þá mætast. Helgi Áss Grétarsson og Jón Kristinn Þorgeirsson og Jóhann Hjartarson og Símon Þórhallsson.

Hlé verður 16. nóvember vegna Íslandsmóts skákfélaga. Undanúrslit og úrslit fara fram 23. og 30. nóvember.

Átta manna úrslit

  1. 2. nóvember: GM Vignir Vatnar Stefánsson – FM Ingvar Þór Jóhannesson 3,5-0,5
  2. 2. nóvember: GM Bragi Þorfinnsson – IM Björn Þorfinnsson 4-0
  3. 9. nóvember: GM Helgi Áss Grétarsson – FM Jón Kristinn Þorgeirsson
  4. 9. nóvember: GM Jóhann Hjartarson – FM Símon Þórhallsson

Undanúrslit

  1. 23. nóvember: Jóhann/Símon – Bragi
  2. 23. nóvember: Vignir – Helgi Áss/Jón Kristinn

Úrslit

  1. 30. nóvember:

Dagskrá

Mótið fer fram á sunnudögum frá 7. september til 30. nóvember 2025, samkvæmt eftirfarandi dagskrá:

  1. 7. september 2025: Netskák dagur 1 (16 manna úrslit, 6 skákir)
  2. 14. september 2025: Netskák dagur 2 (16 manna úrslit, 6 skákir)
  3. 21. september 2025: Netskák dagur 3 (16 manna úrslit, 6 skákir)
  4. 28. september 2025: Netskák dagur 4 (16 manna úrslit, 6 skákir)
  5. 2. nóvember 2025: Netskák dagur 5 (8 manna úrslit, 6 skákir)
  6. 9. nóvember 2025: Netskák dagur 6 (8 manna úrslit, 6 skákir)
  7. 23. nóvember 2025: Netskák dagur 7 (undanúrslit, 6 skákir)
  8. 30. nóvember 2025: Netskák dagur 8 (úrslit, 10 skákir)

Tímamörk verða 3+2 og nákvæmar tímasetningar útsendinga verða tilkynntar síðar. Mótið fylgir útsláttarfyrirkomulagi, þar sem keppendur detta út eftir tap þar til einn stendur uppi sem sigurvegari.

Verðlaun

Verðlaunafé mótsins hefur verið hækkað um 100.000 kr. og er nú sem hér segir:

  1. 200.000 kr.
  2. 100.000 kr.
  3.   25.000 kr.
  4.   25.000 kr.
- Auglýsing -