Á morgun, laugardaginn, 6. mars, kl. 14 hefst Íslandsbikarinn í skák. Átta sterkustu skákmenn landsins tefla útsláttarkeppni um laust sæti á næsta heimsbikarmóti í skák sem fram fer í Sochi í Rússlandi, síðsumars/haust.
Taflmennskan fer fram í Landsbankanum Austurstræti en vegna aðstæðna verður ekki hægt að leyfa áhorfendur. Þess í stað verður einkar mikið lagt í beinar útsendingar.
Meðal þessara átta skákmanna eru sex stórmeistarar, Íslandsmeistarinn í skák, Guðmundur Kjartansson og svo efnilegasti skákmaður landsins, hinn 18 ára, Vignir Vatnar Stefánsson, sem vann Skákþing Reykjavíkur fyrir skemmstu.
Hjörvar Steinn Grétarsson er stigahæstur keppenda og mætir Vigni í fyrstu umferð. Hannes Hlífar Stefánsson, sem er þrettánfaldur (!) Íslandsmeistari í skák er næststigahæstur, og mætir stórmeistaranum Braga Þorfinnssyni í fyrstu umferð. Jóhann Hjartarson er þriðji í stigaröðinni og hefur mesta reynslu allra í einvígum. Vann Viktor Korchnoi í einvígi árið 1988 eins og frægt er. Hann teflir við Helga Áss Grétarsson. Íslandsmeistarinn Guðmundur teflir við Margeir Pétursson sem er afar ánægjulegt að fá aftur af krafti inn í innlent skáklíf.
Taflmennskan fer fram 6.-14. mars. Tefldar eru tvær kappskákir og svo til þrautar með styttri umhugsunartíma verði jafnt eftir kappskákirnar.
Keppandalistinn
- SM Hjörvar Steinn Grétarsson (2578)
- SM Hannes Hlífar Stefánsson (2536)
- SM Jóhann Hjartarson (2525)
- AM Guðmundur Kjartansson (2483)
- SM Margeir Pétursson (2450)
- SM Helgi Áss Grétarsson (2440)
- SM Bragi Þorfinnsson (2439)
- FM Vignir Vatnar Stefánsson (2330)
Beinar útsendingar verða alla dagana í umsjón FIDE-meistarana Ingvars Þór Jóhannessonar og Björns Ívars Karlssonar.
Dagskráin
| Dags. | Kl. | Vikudagur | Hluti | Skák |
| 06-Mar | 14:00 | Laugardagur | Átta manna úrslit | Skák 1 |
| 07-Mar | 14:00 | Sunnudagur | Átta manna úrslit | Skák 2 |
| 08-Mar | 17:00 | Mánudagur | Átta manna úrslit | Framlenging |
| 09-Mar | 17:00 | Þriðjudagur | Undanúrslit | Skák 1 |
| 10-Mar | 17:00 | Miðvikudagur | Undanúrslit | Skák 2 |
| 11-Mar | 17:00 | Fimmtudagur | Undanúrslit | Framlenging |
| 12-Mar | 17:00 | Föstudagur | Úrslit | Skák 1 |
| 13-Mar | 14:00 | Laugardagur | Úrslit | Skák 2 |
| 14-Mar | 14:00 | Sunnudagur | Úrslit | Framlenging |














