Teflt verður í Landsbankanum, Austurstræti.

Á morgun, laugardaginn, 6. mars, kl. 14 hefst Íslandsbikarinn í skák. Átta sterkustu skákmenn landsins tefla útsláttarkeppni um laust sæti á næsta heimsbikarmóti í skák sem fram fer í Sochi í Rússlandi, síðsumars/haust.

Taflmennskan fer fram í Landsbankanum Austurstræti en vegna aðstæðna verður ekki hægt að leyfa áhorfendur. Þess í stað verður einkar mikið lagt í beinar útsendingar.

Meðal þessara átta skákmanna eru sex stórmeistarar, Íslandsmeistarinn í skák, Guðmundur Kjartansson og svo efnilegasti skákmaður landsins, hinn 18 ára, Vignir Vatnar Stefánsson, sem vann Skákþing Reykjavíkur fyrir skemmstu.

Hjörvar Steinn Grétarsson er stigahæstur keppenda og mætir Vigni í fyrstu umferð. Hannes Hlífar Stefánsson, sem er þrettánfaldur (!) Íslandsmeistari í skák er næststigahæstur, og mætir stórmeistaranum Braga Þorfinnssyni í fyrstu umferð. Jóhann Hjartarson er þriðji í stigaröðinni og hefur mesta reynslu allra í einvígum. Vann Viktor Korchnoi í einvígi árið 1988 eins og frægt er.  Hann teflir við Helga Áss Grétarsson. Íslandsmeistarinn Guðmundur teflir við Margeir Pétursson sem er afar ánægjulegt að fá aftur af krafti inn í innlent skáklíf.

Taflmennskan fer fram 6.-14. mars. Tefldar eru tvær kappskákir og svo til þrautar með styttri umhugsunartíma verði jafnt eftir kappskákirnar.

Keppandalistinn

  1. SM Hjörvar Steinn Grétarsson (2578)
  2. SM Hannes Hlífar Stefánsson (2536)
  3. SM Jóhann Hjartarson (2525)
  4. AM Guðmundur Kjartansson (2483)
  5. SM Margeir Pétursson (2450)
  6. SM Helgi Áss Grétarsson (2440)
  7. SM Bragi Þorfinnsson (2439)
  8. FM Vignir Vatnar Stefánsson (2330)

Beinar útsendingar verða alla dagana í umsjón FIDE-meistarana Ingvars Þór Jóhannessonar og Björns Ívars Karlssonar. 

Dagskráin

Dags. Kl. Vikudagur Hluti Skák
06-Mar 14:00 Laugardagur Átta manna úrslit Skák 1
07-Mar 14:00 Sunnudagur Átta manna úrslit Skák 2
08-Mar 17:00 Mánudagur Átta manna úrslit Framlenging
09-Mar 17:00 Þriðjudagur Undanúrslit Skák 1
10-Mar 17:00 Miðvikudagur Undanúrslit Skák 2
11-Mar 17:00 Fimmtudagur Undanúrslit Framlenging
12-Mar 17:00 Föstudagur Úrslit Skák 1
13-Mar 14:00 Laugardagur Úrslit Skák 2
14-Mar 14:00 Sunnudagur Úrslit Framlenging

Heimasíða mótsins

 

- Auglýsing -