Íslandsmótið í skák fer stórskemmtilega af stað og eftir tvær umferðir hefur aðeins ein skák endað með jafntefli af tíu! Jóhann Hjartarson tók forystu á mótinu þegar hann lagði Hjörvar Stein Grétarsson að velli með hvítu mönnunum í umferð dagsins. Hjörvar var vægast sagt óheppinn með töfludrátt og fékk tvo stigahæstu keppendur sína með svörtu í fyrstu umferðunum!
Lítum yfir gang mála í umferð dagsins:
Vignir Vatnar Stefánsson – Alexander Oliver Mai

Vignir og Alexander fylgdu eftir skák Anish Giri gegn Wang Hao sem tefld var fyrir fáeinum dögum á kandídatamótinu. Ungu strákarnir greinlega vel með á nótunum. Fyrstu 16 leikirnir voru nákvæmlega eins. Alexander skipti fyrstur útaf með 16…De7 í stað 16…Db6 hjá Wang Hao.
Vignir hélt aðeins betri stöðu allan tímann og gerði Alexander erfitt um vik og sneri á hann í lokin þó að síðasti fingurbrjótur svarts hafi verið full harður.
Bragi Þorfinnsson – Helgi Áss Grétarsson

Bragi tefldi frumlega og leitaði í einhverskonar blandaða smiðju Shakh Mamedyarov og Róberts Lagerman. Bragi ákvað að fórna peði og í stað þess að vinna peðið til baka, sem var líklega í boði, ákvað hann að reyna að halda uppi pressu.
Helgi Áss varðist vel og úr varð að Bragi valdi að reyna að halda endatafli peði undir en með mislitum biskupum. Helgi reyndu að pressa en Bragi varðist og fyrsta jafntefli mótsins varð niðurstaðan.
Björn Þorfinnsson – Hannes Hlífar Stefánsson

Blaðasnápurinn Björn Þorfinnsson tefldi frumlega og hafði kóng sinn á miðborðinu og hrókana bakvið kantpeð með ýmsa möguleika í huga. Hannes fórnaði skiptamun en hafði einnig peð upp í skiptamuninn. Líklega var staðan í dýnamísku jafnvægi en Hannes sneri á Björn í tímahraki Björns og hafði sigur. Vert er að minna á pistla Björns á visir.is, hér er sá nýjasti.
Guðmundur Kjartansson – Sigurbjörn Björnsson

Einn af lykilstyrkleikum Guðmundar Kjartanssonar í gegnum tíðina hefur verið sá hæfileiki að mæta bara í næstu skák þó sú síðasta hafi gengið illa. Þá ég við að hann lætur ekki slæm úrslit hafa áhrif á næstu skákir. Guðmundur sýndi þennan styrkleika í dag og tefldi mjög þétta skák gegn Sigurbirni sem virtist engan veginn eygja neina sól í kóngsindverjanum í viðureign dagsins.
Jóhann Hjartarson – Hjörvar Steinn Grétarsson

Jóhann tefldi lokaða afbrigðið í Sikileyjarvörn og beitti frumlegri hugmynd. Spurning er hvort um undirbúning hefur verið að ræða en vissulega hefur Hjörvar teflt svipað áður. Líklega tefldi Hjörvar miðtaflið of glannalega og kóngur hans varð strandaglópur á miðborðinu…í raun varð hann það alla skákina og svartur varð að gefast upp þegar peðafylking nálgaðist kónginn. Mjög vel útfærð skák hjá Jóhanni!

Taflið heldur áfram á morgun klukkan 15:00 eins og alla daga og beinar lýsingar verða í boði á Skákvarpinu og hægt að horfa á skákirnar í beinni á ýmsan hátt (sjá tengla að neðan)
Kópavogur, Arion banki, Brim og Teva styðja á myndarlegan hátt við mótshaldið.
Helstu tenglar
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results
- Skákvarpið
- Beinar útsendingar (heimasíða)
- Beinar útsendingar (Chess24)
- Beinar útsendingar (Chess.com)
- Beinar útsendingar (Followchess) – tengill væntanlegur
- Beinar útsendingar (Chessbomb)














