Blikarnir grænu komu, sáu og sigruðu á atskákkeppni taflfélaga sem haldin var 8-9. nóvember í Faxafeni 12. Alls voru 8 félög mætt til leiks og 14 keppnissveitir í heildina. Taflfélag Reykjavíkur sá um mótahaldið.

Yfirburðir Blikanna voru þónokkrir og sérstaklega þar sem heildarvinningar giltu í mótinu en ekki „matchpoints“ eins og ranglega var farið með í frétt um fyrri keppnisdag mótsins…ekki að það hafi skipt nokkru máli enda Breiðablik í sérflokki. Blikarnir hlutu 12 vinningum fleiri vinninga en næsta sveit og munar þar tveimur heilum viðureignum! Blikar enduðu með 48,5 vinning af 54 mögulegum.

Flottur árangur hjá Breiðablik og munaði þar mest um að Vignir Vatnar Stefánsson, Einar Hjalta Jensson og Arnar Milutin Heiðarsson fengu allir fullt hús, 9 vinninga af 9 mögulegum!

Baráttan um 2. sætið var öllu harðari og þar komu Fjölnir, Taflfélag Reykjavíkur og Taflfélag Garðabæjar jöfn í mark með 36,5 vinning. Fjölnir náðu öðru sæti þar sem þeir voru með 15 stig úr viðureignum og næst TR með 14 stig.

Ánægja var með mótið og ljóst að það er komið til að vera á mótadagatalinu!

Mótið á chess-results

- Auglýsing -