Evrópumóti ungmenna í Antalya í Tyrklandi er lokið. Í níundu og síðustu umferð unnu Benedikt Briem, Gunnar Erik og Iðunn sínar skákir. Örvar Hólm, Benedikt Þórisson, Ingvar Wu, Adam, Aleksandr og Guðrún Fanney gerðu jafntefli en aðrir töpuðu. Sigurskák Gunnars Eriks vakti mikla athygli en honum tókst að koma hrók frá a1 upp á a4 og þaðan yfir á h4 þar sem hann átti þátt í að máta svarta kónginn í 19. leik.

Aleksandr Domalchuk-Jonasson fékk flesta vinninga Íslendinganna á mótinu, 6 af 9 mögulegum, í flokki U18 og endaði í 10. sæti. Árangur Aleksandrs samsvaraði 2451 stigi og náði hann sínum fyrsta áfanga að alþjóðlegum meistaratitli. Það verður að teljast eftirtektarverður árangur á svona sterku móti. Taflmennska Aleksandrs var ákaflega traust og byrjanaundirbúningur til fyrirmyndar.

Í flokki U16 fékk Benedikt Briem flesta vinninga Íslendinganna, 5 talsins. Gunnar Erik fékk 4 vinninga, Benedikt Þórisson 3,5 vinning og Adam og Ingvar Wu 3 vinninga eftir innbyrðis jafntefli í lokaumferðinni. Iðunn Helgadóttir fékk 4 vinninga í flokki U16 stúlkna.

Í flokki U14 fékk Matthías Björgvin 4 vinninga og Mikael Bjarki 2,5 vinning. Katrín María fékk 2 vinninga í flokki U14 stúlkna.

Í flokki U12 fékk Sigurður Páll 3,5 vinning og Jósef 3 vinninga. Guðrún Fanney Briem fékk 4 vinninga í flokki U12 stúlkna.

Í flokki U10 fékk Birkir 4,5 vinning. Örvar Hólm og Oliver fengu 3 vinninga.

Nokkrir íslensku keppendanna hækkuðu talsvert á skákstigum fyrir frammistöðu sína á mótinu. Matthías Björgvin hækkaði mest (+88), Birkir (+78), Gunnar Erik (+45), Iðunn (+37) og Aleksandr (+37).

Aðstæður á Evrópumótinu voru í hæsta gæðaflokki. Allt utanumhald og skipulag mótshaldara var í föstum skorðum. Vel var búið að keppendum á skákstað, sem var rúmur og þægilegur. Keppendur gistu á Hotel Pine Beach Belek sem er 5 stjörnu hótel við Miðjarðarhafið. Hótelið liggur alveg við ströndina og þar eru sundlaugar og ýmsir íþróttavellir þar sem keppendur gátu hreyft sig þegar tími gafst. Ljóst er að búið er að lyfta ránni ansi hátt og erfitt verður fyrir næstu keppnisstaði að ná svona hátt!

Alls tefldu 16 íslenskir keppendur á Evrópumótinu, sem er mesti fjöldi sem Skáksamband Íslands hefur sent á mót af þessu tagi. Íslensku keppendurnir voru til mikillar fyrirmyndar á mótinu. Framkoma og vinnubrögð eins og best verður á kosið. Stór hópur foreldra fylgdi íslensku keppendunum á mótið. Þeir nutu sín vel í sólinni og hjálpuðu til við að gera mótið eftirminnilegt fyrir krakkana.

Mót af þessu tagi eru gríðarlega góður skóli fyrir krakkana. Á mótunum mæta krakkarnir iðullega vel undirbúnum andstæðingum og hending að „auðveldir“ vinningar detti í hús. Lærdómurinn verður því að það verður að mæta vel undirbúinn til leiks líka og það þó að stundum geti verið pirrandi að andstæðingurinn finni auðveldlega 50-100 skákir með okkar krökkum en við nánast engar hjá andstæðingnum. Þá er eins gott að hafa sínar eigin byrjarnir vel á hreinu!
Þjálfarar og fararstjórar hópsins voru Helgi Ólafsson, Björn Ívar Karlsson og Ingvar Þór Jóhannesson.















