Fyrsta umferð á Meistaramóti Skákskóla Íslands 2022 – Unglingameistaramót Íslands 2022 – U22 hófst í gær í húsnæði Skákskóla Íslands í Faxafeni 12. Alls hófu 20 keppendur leik og mikið í húfi þar sem efsta sætið gefur sæti í Landsliðsflokki!

CAD bræðurnir, Birkir Karl Sigurðarson og Leifur Þorsteinnsson sjá um að leika fyrsta leiknum fyrir Iðunni Helgadóttur.

Mótið var sett með því að þeir Chess After Dark (CAD) bræður, Birkir Karl Sigurðarson og Leifur Þorsteinsson mættu til þess að leika fyrsta leiknum. Sterkur leikur hjá skólastjóranum, Helga Ólafssyni, að heiðra þessa miklu meistara enda hefur CAD haldið algjörlega glæsileg mót að undanförnu með góðri þátttöku og glæsilegum verðlaunum.

Þrátt fyrir að úrslit hafi „verið eftir bókinni“ gekk það engan veginn átakalaust fyrir sig. Alekander Domalchuk-Jonasson lenti í miklum vandræðum og stóð lengi vel höllum fæti gegn Iðunni Helgadóttur.

Í jafnri stöðu lék Aleksandr …f6 og hefur líklegast misst af sterku framhaldi hvíts, 14.Dg4! Svartur tapar í framhaldinu peði og hefur ekki nægar bætur fyrir það. Iðunni tefldi framhaldið vel og gaf í raun engin færi á sér. Það var ekki fyrr en í 25. leik sem að taflið snerist. 25.Dxh7?? var líklega of mikil græðgi í stöðunni og „Sasha-Domm“ eins og margir kalla hann lét ekki bjóða sér færið tvisvar.

Hilmir vann peð snemma með lærdómsríku „trikki“ sem allir alvöru skákmenn ættu að tileinka sér!

13…Dd7? var slakur leikur í jafnri stöðu. Hilmir nýtti sér taktíska möguleika í stöðunni og lék 14.Rxe5 og stóð til vinnings. Engu að síður varð skákin 61 leikur og því hægt að setja spurningamerki við úrvinnslu hvíts í skákinni!

Á þriðja borði nýtti Birkir Ísak vel taktískt færi sem hann fékk í 19. leik. Mikael Bjarki lék aðeins of mörgum passífum riddaraleikjum og var refsað fyrir það.

19…Bxg3! og svartur braust í gegn.

Aðrar skákir fóru eftir bókinni og má nálgast hér að neðan:

Allar skákir mótsins eru kappskákir sem er breyting frá því sem verið hefur þar sem mótið hefur yfirleitt hafist með atskákum á föstudegi. Þess í stað eru tvær kappskákir í dag föstudag, og svo hefðbundnar þrjár kappskákir um helgina. Ljóst er að mikil barátta er framundan.

Dagskráin framundan:

2. umferð, kl. 15. föstudaginn 16. desember
3. umferð kl.: 19. föstudaginn 16. desember
4 umferð kl.: 11, laugardaginn, 17. desember
5 umferð kl.: 17, laugardaginn, 17. desember
6. umferð kl.: 10.30, sunnudaginn, 18. desember

- Auglýsing -