Önnur umferð Meistaramóts Skákskóla Íslands – Ungmennameistaramóts Íslands Íslands (u22) lauk í gær og úrslitin voru algjörlega eftir bókinni. Stigahærri andstæðingurinn bar sigur úr býtum í öllum viðureignum!
Á efsta borði fékk landsliðmaðurinn Hilmir Freyr svart gegn Adam Omarssyni. Adam var þéttur snemma tafls en lenti svo í stöðulegum vandræðum með bakstætt e3 peð sem leiddi til taktískra vandamála.
21…Rxb2! nýtti vandamálin og svartur tók yfir skákina.
Á öðru borði mætti Stephan Briem hinum unga og efnilega Sigurði Páli Guðnýjarsyni. Sigurður vann flottan sigur í fyrstu umferð og hann tefldi þétt með svörtu mönnunum (aftur!) og neyddi Stephan til að fara í „svíðings-vestið“ sitt og kreysta fram vinning í endataflinu.
Skák Ingvars og Örvars á þriðja borði varð fljótt að baráttu biskupaparsins gegn riddaraparinu. Biskuparnir reyndust sterkari eins og fræðin eru yfirleitt sammála um!
Byrjanataflmennska Iðunnar á fimmta borði var ekki nógu hnitmiðuð. Gunnar Erik náði snemma að setja vandamál fyrir hvítan og peð féll í valinn hjá hvítum full snemma. Gunnar tefldi vel eftir það og gaf engan grið!
Birkir missti þráðinn í miðtaflinu gegn Mikael Bjarka og tapaði manni sem réði úrslitum.
Josef fékk svart gegn Jobava London hjá Guðrúnu eins og Adam bróðir hans deginum áður. Skákirnar þróuðust ekkert ósvipað og Josef réðist á drottningarvænginn og hafði betur eins og Adam deginum áður.
Um helgina eru tefldar tvöfaldar umferðir báða dagana. Skák Hilmis og Stephan í þriðju umferðinni gæti mögulega verið úrslitaskákin á mótinu!
- Skákir á lichess (með delay)
- Twitch streymi frá efsta borði
- Mótatilkynning og upplýsingar (verðlaun, dagskrá o.fl.)
- Mótið á Chess-Results















