Þriðja umferð NM stúlkna lauk fyrr í kvöld í húsnæði TR í Faxafeni. Mikil spenna er á mótinu og baráttan hörð.

A flokkur

Iðunn kom andstæðingi sínum á óvart í byrjuninni sem kostaði þá sænsku mikinn tíma. Iðunn fékk góð færi á kóngsvængnum og vandamálin sem svartur þurfti að leysa voru erfið. Á endanum gaf vörnin sig, Iðunn fórnaði manni, og mátaði í kjölfarið. Vel útfærð skák. Iðunn hefur tvo vinninga að lokinni umferðinni og er í toppbaráttunni.

B flokkur

Katrín María og Guðrún Fanney mættust innbyrðis. Guðrún tók mikla áhættu í byrjuninni sem Katrínu Maríu tókst ekki að refsa henni fyrir. Guðrún fékk betri stöðu í framhaldinu og hafði sigur. Guðrún hefur tvo vinninga að lokinni umferðinni og er í toppbaráttunni.
Margrét Kristín lék ónákvæmum leik í byrjuninni og tapaði liði. Hún komst aldrei inn í skákina eftir það.
Sóley Kría tefldi mikla baráttuskák gegn Gultekin frá Svíþjóð. Eftir að hafa haldið sér fast í miðtaflinu átti Sóley góðan möguleika á jafntefli en sú sænska hafði að brjótast í gegn á endanum.
Hrafndís lenti undir mikilli pressu eftir byrjunina og þurfti að leggjast í nauðvörn. Hún náði því miður ekki að koma sér út úr þeim vandræðum og tapaði.

C flokkur


Emilía Embla
tefldi góða skák gegn Xin frá Færeyjum. Staðan var jöfn lengi vel en þolinmæði Emilíu Emblu var meiri og um leið og sú færeyska gaf færi á sér nýtti Emilía sér það vel og vann góðan sigur. Emilía Embla hefur tvo vinninga að lokinni umferðinni og er í toppbaráttunni.

Halldóra mætti hinni finnsku Bhaumik. Staðan var í jafnvægi fram í endatafl þar sem Halldóru gafst gott tækifæri á því að koma þeirri finnsku í leikþröng. Halldóra missti af sínum færum og skákin leystist fljótlega upp í jafntefli eftir það.

Sigrún Tara tefldi góða og heilsteypta skák gegn Silju Rún. Sigrún vann peð eftir byrjunina og svo annað og sigldi öruggum sigri í höfn. Sigrún Tara hefur tvo vinninga að lokinni skákinni og er í toppbaráttunni.
Tara Líf lék ónákvæmum leikjum í byrjuninni og komst aldrei almennilega inn í skákina. Hún lærir dýrmæta lexíu af þessari skák.

Elsa Margrét hafði hvítt á Emilíu S. Þær tefldu báðar of hratt og þurfa að læra af því. Tímanotkunin réði úrslitum því báðar höfðu þær sín færi sem þær nýttu ekki nægilega vel. Elsa Margrét vann eftir miklar sviptingar.

Keppendur mótsins enduðu daginn á sameiginlegri máltíð og óvæntum viðburði sem hefur vakið mikla spennu meðal keppenda.

Aðstæður á skákstað eru með besta móti og hafa vakið ánægju bæði íslensku og erlendu keppendanna sem og fylgdarfólks.

4. umferð mótsins hefst kl. 9:00 á morgun, sunnudag. Mótinu lýkur svo með 5. umferð kl. 15:00 síðar sama dag.

Heimasíða mótsins
Chess-results
Beinar útsendingar

- Auglýsing -