Meistaramót TRUXVI fór fram í gærkvöldi í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni 12. Mótið er að mestu úr hugmyndasmiðju Gauta Páls Jónssonar og er orðinn fastur hluti af starfssemi félagsins. Segja má að meistaramótið marki lok starfsárs ungmennahreyfingar Taflfélags Reykjavíkur (TRUXVI). Hugmyndin er að ungir skákmenn félagsins fái tækifæri á að keppa við breitt bil sterkra skákmanna.
Sigurvegarar fyrri móta:
- 2023 GM Vignir Vatnar Stefánsson
- 2022 IM Vignir Vatnar Stefánsson
- 2021 IM Vignir Vatnar Stefánsson
- 2020 IM Davíð Kjartansson
- 2019 IM Arnar Gunnarsson
- 2018 IM Guðmundur Kjartansson
- 2017 IM Arnar Gunnarsson
Vignir Vatnar var upptekinn við að vinna alþjóðlegt skákmót í Ungverjalandi og gat því ekki varið titilinn í þriðja skiptið í röð. 38 skákmenn tóku þátt á mótinu og virtist Arnar Gunnarsson ætla að gjörsamlega stinga af. Í fyrstu níu umferðunum hlaut hann 8 vinninga og var kominn með 1,5 vinnings forskot á næstu menn, aðeins Arnar Milutin hafði náð að leggja hann að velli.
Í lokaumferðunum náðu Björn Hólm og Adam Omarsson óvænt að veita Arnari skráveifu og Helgi Áss Grétarsson og Bárður Örn nýttu sér það til að ná Arnari að vinningum. Arnar hafði hinsvegar teflt á toppnum allan tímann og var því skiljanlega með betri oddastig. Þessi þrír skiptu með sér peningaverðlaunum samkvæmt Hort-kerfinu.
Lokastaða efstu skákmanna:


Josef Omarsson var efsti „TRUXVI-nn“ og hlaut verðlaun fyrir það. Hann var einn fjölmargra unga skákmanna sem hækkuðu sín hraðskákstig á þessu móti.

Efstu þrír. Helgi Áss Grétarsson (3. sæti á stigum), Arnar Gunnarsson (efstur á stigum), Bárður Örn (annar á stigum).
Almennt fór mótið mjög vel fram, Gauti Páll og Ingvar Þór Jóhannesson sáu um skákstjórn og létt stemmning yfir mótinu. Vinsamleg tilmæli eru þó til nokkurra keppenda að minnka aðeins afl við að ýta á klukkur…það er yfirleitt ekki klukkunni að kenna þegar skákum er leikið niður og því ósanngjarnt að hún þurfi að þola barsmíðar fyrir það!
Myndir:

- Mótið á chess-results
















