Jón L. á EM 2024

Íslenska liðið á HM öldungasveita var að sætta sig við sitt fyrsta tap á mótinu sem fram fer í Prag í Tékklandi. Eftir sterka byrjun á mótinu kom smá magalending og Kazakar lögðu okkar menn að velli 1-3.

Viðureign dagsins leit svona út:

Þröstur Þórhallsson hvíldi í umferðinni.

Jóhann hafði hvítt á efsta borði gegn Murtas Kazhgaleyev (2495) sem er sjöundi stigahæsti skákmaður mótsins. Úr varð hörku baráttuskák. Í miðtaflinu hafði Jóhann biskupaparið en Murtas riddarana. Virkni og frumkvæði svörtu stöðunnar reyndist á endanum sterkara og Murtas vann gríðarlega mikilvægan sigur fyrir Kazakana.

Á öðru borði tapaði Margeir Péturson einnig en hann lenti þó í leiðindaaðstöðu þar sem staðan í viðureigninni var 1-2 fyrir Kazaka og Margeir þurfti því í raun að reyna að sprengja sig í traustri jafnteflisstöðu til að laga stöðuna. Það misfórst og Kazakar tóku punkt á þessu borði líka.

Á þriðja borði hafði Helgi Ólafsson hvítt og virtist lengst af halda góðri stjórn með Bayonet-afbrigði gegn kóngsindverksri vörn svarts. Þegar leið á fann Kazakinn mótspil sem bar árangur þegar Helgi lék af sér í 36. leik.

Eini ljósi punktur dagsins var sigur Jóns L. með svörtu mönnunum. Því miður dugði það skammt þar sem hvítu mennirnir fóru gjörsamlega í vaskinn í dag. Jón tefldi traust og tók sína sénsa þegar þeir buðust.

Niðurstaðan stórt tap, 1-3. Engin ástæða til að dvelja og lengi við það, enginn verður óbarinn biskup og allt það…safna bara liði fyrir næsta bardaga!

Kazakarnir taka forystu ásamt Ítölum sem lögðu Englendinga að velli. Íslendingar detta aðeins niður stöðutöfluna en engin ástæða til að örvænta. Bandaríkin og England hafa jafnmarga vinninga og íslenska liði og mikið er eftir af mótinu!

Í fimmtu umferð fær íslenska liðið sveit Ungverja. Tilvalið er að hefna fyrir tap körfuboltalandsliðsins gegn Ungverjum og fara inn í frídaginn í góðum gír!

Ungverjarnir eru vissulega þéttir og harðir en enn og aftur ættu okkar menn að hafa betur ef allt er eðlilegt!

Heimsmeistaramótið í Prag er níu umferðir og verður frídagur 22. febrúar að loknum fimm umferðum en að öðru leiti verður teflt á hverjum degi.

- Auglýsing -