Þeir Vignir Vatnar Stefánsson og Benedikt Briem hafa haldið í víking og tefla nú á Lagos Open í Portúgal. Fyrir umferð dagsins hafði Benedikt fullt hús, 3 vinninga af 3 en Vignir þurfti að gefa einn vinning eftir til að tefla á Íslandsmótinu í Netskák.
Benedikt var því á efsta borði í 4. umferð og mæti stigahæsta keppandanum Harikrishnan (2536) og hafði hvítt. Benedikt tefldi vel og var eiginlega aldrei í vandræðum ef horft er á tölvumatið. Svartur tefldi þó hratt og Benedikt var mjög langt undir á klukkunni. Benedikt var hinsvegar vandanum vaxinn í tímahrakinu, lét ekki plata sig og hélt endataflinu, mjög góð úrslit!

Vignir vann sína skák en missti algjörlega þráðinn taktísk á kafla í lokin og var heppinn að andstæðingurinn tók ekki sína sénsa! Vignir hafði þó betri stöðu lengst af og mun betri tíma en tímapressu-taktíkin hefði getað komið í andlitið á honum á einum tímapunkti.
Staðan er því þannig að Benedikt er jafn nokkrum skákmönnum í 2. sæti en FIDE-meistarinn Kacper Tomaszewski er efstur með fullt hús og mætir Harikrishnan í 5. umferð. Benedikt fær svart gegn Hanna Bugaj (1975) frá Póllandi og Vignir hefur svart gegn öðrum Pólverja Emilia Szopa (2059).
Vert er að minna á skráningu á mót þeirra félaga á Le Kock sem fram fer síðar í mánuðinum hvar Simon Williams mætir til leiks!
Lagos Open er 9 umferða mót með einum tvöföldum degi en að öðru leiti er ein skák á dag. Vignir er næststigahæstur á mótinu á eftir indverskum alþjóðlegum meistara og Benedikt er sjöundi í stigaröðinni. Alls eru 74 keppendur á mótinu.
			
		














