Hjörvar og Héðinn enn jafnir eftir níu umferðir

0
766

Stórmeistararnir Hjörvar Steinn Grétarsson og Héðinn Steingrímsson slást enn um sigurinn á Íslandsmótinu í skák. Þeir eru í forystu á mótinu með 7,5 vinning af 9 mögulegum eftir umferð kvöldsins og næstu menn hafa 5 vinninga og geta ekki náð þeim að vinningum.

Hjörvar var fyrri til að leggja sinn andstæðing með snörpum sigri á Sigurði Daða Sigfússyni. Hjörvar fórnaði skiptamun fyrir góða sókn og Sigurður lék mjög illa af sér í kjölfarið og varð að leggja niður vopn.

Skák Héðins varð öllu meira spennandi. Héðinn stýrði svörtu gegn Jóhanni Hjartarsyni og úr varð snarpur slagur í Sikileyjarvörn. Jóhann virtist standa ögn betur á stórum köflum í skákinni og hafði peði yfir og betri tíma. Héðinn hafði hinsvegar sín færi og smátt og smátt saxaði á tíma Jóhanns. Jóhann opnaði kóngsstöðu sína þegar hann var kominn með verri tíma og lenti í erfiðleikum sem hann hafði ekki tíma til að glíma við.

Jón Loftur Árnason vann sína aðra skák í röð er hann þjarmaði jafnt og þétt að Lenku Ptacnikovu sem er annars búin að eiga gott mót. Jón náði með því Hannesi að vinningum og er í 3-4. sæti. Jón og Lenka verða bæði í eldlínunni á morgun þegar þau etja kappi við forystusauðina. Jón L. hefur hvítt á Hjörvar á meðan Héðinn stýrir hvítu gegn Lenku.

Af öðrum skákum má nefna að Björn Þorfinnsson og Hannes Hlífar gerðu tíðindalítið jafntefli en þeir Henrik Danielsen og Einar Hjalti Jensson unnu sigra og bættu stöðu sína í mótinu. Henrik hafði betur gegn Bragi Þorfinnssyni eftir að hafa haft gjörtapað tafl en Einar tefldi góða skák gegn Guðmundi Kjartanssyni.

Sigurinn tryggði jafnframt Einari Hjalta alþjóðlegan meistaratitil en hann náði með þessum úrslitum sínum síðasta áfanga að titlinum og hafði þegar náð tilsettu stigalágmarki. Skak.is óskar Einari innilega til hamingju með þennan árangur!

 

Fjörið og spennan heldur áfram um helgina. Mikil dramatík hefur verið í mörgum skákum og ljóst er að þeir Hjörvar og Héðinn mun þreyta úrslitaskák á sunnudeginum sama hvernig fer á laugardeginum. Við minnum að gefnu tilefni á að umferðir hefjast klukkan 13:00 um helgina. Heitt er á könnunni og útsýnið fallegt á 8. hæð í Hörpunni!