Guðmundur og Lenka skákmeistarar Íslands 2014

0
879

Þá er 100. Skákþingi Íslands lokið. Úrslit urðu þau að Guðmundur Kjartansson er skákmeistari Íslands 2014 og Lenka Ptachnikova skákdrottning Íslands 2014.

Mótið fór fram við góðar aðstæður í stúkunni við Kópavogsvöll. Teflt var í tveimur flokkum, landsliðsflokki þar sem tíu, úr hópi okkar allra sterkustu skákmanna öttu kappi, og áskorendaflokki, þar sem 43 keppendur tefldu í opnum flokki.

Spennan var mikil í báðum flokkum og ekki ljóst fyrr en eftir síðustu skák í dag hverjir verma myndu efstu sæti hvors flokks.

Landsliðsflokkur

Þegar Guðmundur samdi jafntefli við Hjörvar Stein Grétarsson í síðustu umferð var þegar ljóst að hann yrði næsti skákmeistari Íslands því Hannes Hlífar Stefánsson hafði samið jafntefli við Henrik Danielsen skömmu áður. Hannes var sá eini sem gat náð Guðmundi að vinningum og hefði þurft sigur í síðustu umferð. Nýtt nafn var því skráð í sögubækurnar í gær.

Guðmundur er afar vel að sigrinum kominn. Hann tefldi vel allt mótið og var sá eini sem ekki tapaði skák – hlaut 6.5 vinninga í 9 skákum og náði áfanga að stórmeistaratitli með frammistöðu sem jafngilti 2.624 Elo stigum! Þetta er frábær árangur og nú verður þessi vart langt að bíða að Guðmundur ljúki síðasta áfanganum og verði 15. stórmeistari okkar Íslendinga.

Gummi er hvers manns hugljúfi en með keppnisskapið á sínum stað. Það er ljóst að hann hefur bætt sig verulega síðustu misseri og endataflstækni hans er með þeim hætti að reyndari meistarar gætu lært af henni lexíu. Fyrir sigurinn hlýtur Guðmundur 300.000 kr. í verðlaun auk þess sem stórmeistaraáfanginn er verðlaunaður sérstaklega af Skáksambandi Íslands. Glæsilegur fulltrúi yngri kynslóðar skákmanna, fyrirmynd sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.

Jafnir í 2.-3. sæti með 5.5 vinninga urðu Héðinn Steingrímsson og Hannes Hlífar Stefánsson. Héðinn byrjaði illa en sótti í sig veðrið og náði 4 vinningum í síðustu 5 skákunum. Hannes Hlífar, sem unnið hefur Skákþing Íslands oftar en nokkur annar, eða alls 12 sinnum, var í forystu í mótinu framan af, en fataðist ögn flugið og verður að sætta sig við skipt annað sætið að þessu sinni. Héðinn hlýtur silfrið á stigum.

  1. Guðmundur Kjartansson 6.5 vinninga

2.       Héðinn Steingrímsson  5.5 vinninga (24 stig)

3.       Hannes Hlífar Stefánsson 5.5 vinninga (22 stig)

Að öðru leyti er vísað til töflu: (http://chess-results.com/tnr134014.aspx?lan=1&art=4&flag=30&wi=821)

Áskorendaflokkur

Í áskorendaflokki, bar Sigurður Daði Sigfússon sigur úr býtum með 7.5 vinninga af 9 mögulegum. Daði tapaði snemma móts fyrir Magnúsi Teitssyni, en leyfði svo einungis eitt jafntefli í næstsíðustu umferð á móti Lenku. Gott mót hjá Sigurði Daða. Annað sæti hreppti Lenka Ptachnikova með 7.0 vinninga. Hún sigraði Davíð Kjartansson í síðustu umferð en Davíð varð að sigra til þess að ná Sigurði Daða. Það gekk ekki eftir og Lenka hafði betur í langri skák. Lenka tefldi vel í mótinu og er vel að silfrinu komin og mun ásamt Sigurði Daða tefla í landsliðsflokki að ári.

Davíð varð þriðji á stigum, en jafnir honum með 6.5 vinninga komu Óliver Aron Jóhannesson og hinn 11 ára Vignir Vatnar Stefánsson.

1.       Sigurður Daði Sigfússon 7.5 vinninga

2.       Lenka Ptachnikova 7.0 vinninga

3.       Davíð Kjartansson 6.5 vinninga (46 stig)

4.       Óliver Aron Jóhannesson 6.5 vinninga (45.5 stig)

5.       Vignir Vatnar Stefánsson 6.5 vinninga (40.5 stig)

Annars er vísað til töflu á chess-result vefnum: http://chess-results.com/tnr129653.aspx?lan=1&art=1&flag=30&wi=821.

Kvennaflokkur

Kvennaflokkur var háður sem hluti af áskorendaflokki. Lenka Ptachnikova, sem verið hefur sterkust íslenskra skákkvenna síðustu ár, var hlutskörpust. Lenka hlaut 7 vinninga en á hæla hennar komu svo stöllur hennar úr landsliðinu, Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir og Tinna Kristín Finnbogadóttir með 5.5 vinninga. Hallgerður hlaut silfrið á stigum.

1.       Lenka Ptachnikova 7.0 vinninga

2.       Hallgerður HelgaÞorsteinsdóttir 5.5 vinninga

3.       Tinna Kristín Finnbogadóttir 5.5 vinninga

Sérstök verðlaun voru veitt í áksorendaflokki fyrir bestan árangur miðað við eigin stig. Undir 2.000 stigum náði Aron Thor Mai bestum árangri en Sigurður Daði var bestur yfir 2.000 stigum.

Starfsmenn mótsins hljóta þakkir fyrir einurð, úthald og vandaða umgjörð.

Omar Salama, Steinþór Baldvinsson, og Ingibjörg Edda Birgisdóttir sáu um skákstjórn en auk þess lagði Gunnar Björnsson forseti lóð á vogarskálarnar auk Erlu Hlínar Hjálmarsdóttur og margra annarra. Veitingar sá Birna um eins og henni er einni lagið. Skákskýringar og umsjón mótsvefjar voru í góðum og öruggum höndum landsliðseinvalds kvenna, Ingvars Þórs Jóhannessonar.