Það stefnir í gríðarlega spennu á Íslandsmótinu en nú eru heilir fjórir skákmenn efstir og jafnir með 3 vinninga eftir 4 umferðir.

Guðmundur Kjartansson leiddi fyrir umferðina en Helgi Áss lagði hann að velli í umferð dagsins. Dagur fékk því möguleika á að ná forystunni en skiptur hlutur við Braga skildi hann einnig eftir með 3 vinninga ásamt Hjörvari sem vann góðan sigur í dag.

Kíkjum á gang mála í umferð dagsins.

Gauti Páll Jónsson – Björn Þorfinnsson

Gauti Páll er að breytast í Anish Giri þessa lands…allavega með hvítu mönnunum!

Gauti skundaði fram með d-peðið enn eina ferðina og Björn Þorfinnsson ákvað að halda tryggð við hrað-drottningarindverjann eftir 1.d4 Rf6 2.c4 b6!?

Hvítur valdi eina af krítísku leiðunum gegn þessu afbrigði sem tryggir honum gott miðborð. Gauti hafði lengi eitthvað betri stöðu en Björn náði að því er virtist að snúa eilítið á Gauta í endatafli með drottningu og riddara Björns gegn drottningu og biskupi Gauta. Þegar Björn var búinn að vinna peð var flótfærnin honum að falli og slakur leikur 33…a5 gáfu Gauta Páli peðið til baka og betri stöðu. Heimildir herma að Björn hafi ætlað að ná að sjá „Barnaby leysir gátuna“ á RÚV og því flýtt sér svona.

Gauti hefði mögulega getað reynt að pína Björn eitthvað í lokin en þráskák varð niðurstaðan. Gauti Páll hefur heillað marga með þessari sterku byrjun sinni á mótinu og ætti aðdáenda-síða Gauta Páls á Facebook að fá meiri meðbyr í kjölfarið. Meðlimir eru nú 177 talsins en þeir hljóta að stökkva yfir 200 hið snarasta!

Gauti Páll er bezt klæddi keppandinn eins og endranær!
Grafið hjá Gauta og Birni tók mikið stökk seint í skákinni og stóð þá Gauti langleiðina til vinnings en matið jafnast svo út þegar þráskákin næst.

 

 

Hjörvar Steinn Grétarsson – Þröstur Þórhallsson

Hjörvar tók annan snúning með d-peðinu og að tefla gegn drottningarbragði. Hans besta skák til þessa í mótinu var einmitt í drottningarbragði gegn Vigni Vatnar.

Mögulega sáum við enn eina ferðina áhrif Alphazero á nútímaskák en h-peð Hjörvars fór í völdunarleiðangur snemma tafls sem telst nokkuð óvenjulegt í þessum stöðum. Hjörvar endaði á að langhróka en slíkt hið sama gerði Þröstur en staðan virtist vera nokkuð örugg hjá Þresti þegar Hjörvar náði „Fréttablaðs-gegnumbroti“ rétt fyrir tímamörkin 38.Bxd5! nýtti sér glæsilega óvaldaða menn til að þvinga fram liðsvinninga sem nægu til sigurs. Eiginlega kennslubókartaktík sem menn geta lært vel af!

Mikilvægur sigur hjá Hjörvari sem bætist í hóp efstu manna. Þröstur verið seinheppinn á þessu móti en lagar vonandi stöðuna í seinni part móts.

 

Hjörvar fékk eitthvað betra eftir byrjunin og sinn byrjunarundirbúning en líklega var Þröstur búinn að jafna taflið og mögulega gott betur þegar Hjörvar fann sleggjuna í tímahrakinu!

 

 

Margeir Pétursson – Vignir Vatnar Stefánsson

Ensku leikurinn kom ekki mikið á óvart í þessari skák og í raun ekki heldur h-peðs framrás Vignis. Við höfum mikið talað um þessar „Alphazero-árásir“ í útsendingum mótsins.

Þessi h5-leikur eftir 1.c4 e5 2.g3 h5!? man ég samt fyrst eftir í skák Ivan Sokolov sem beitti þessu í skák gegn Lenku á Reykjavik Open þegar fartölvan hans bilaði.

Margeir virðist eitthvað hafa gægst í gagnagrunnana þar sem hann fórnaði peði á h4 í leið sem tölvurnar telja vænlega á hvítt. Hvítur fékk og líka betri stöðu en Margeir missti af mjög lúmskum taktískum gildrum þegar hann lék 13.Dc1? sem leiddi til peðsvinnings hjá Vigni. Vignir virtist þá vera að sigla lygnan sjó en Margeir náði að koma sér aftur inn í skákina með góðum drottningarkaupum og sterkum 26.bxc3 leik sem tryggði hróksendatafl sem líklegast var nálægt því að vera í jafnvægi. Ungi strákurinn hinsvegar tefldi endataflið mjög vel og náði að leggja hinn reynda stórmeistara að velli.

Gott þroskamerki hjá Vigni að halda áfram að berjast eftir að hafa misst skákina niður en það hefur stundum verið veikleiki hjá honum að svekkja sig of mikið á atburðum sem liðnir eru.

Heilt yfir, þriðja besta CAPS einkun mótsins hjá Vigni. Taflið jafnaðist þegar hróksendataflið kom upp en þá steig Vignir á bensíngjöfina og sigldi þessu heim.

 

Helgi Áss Grétarsson – Guðmundur Kjartansson

Ekki gott að segja hvort félagarnir Helgi og Guðmundur séu í grettukeppni eða hvort ljósmyndarinn hafi prumpað hressilega!

Helgi og Guðmundur hafa verið miklir félagar undanfarin ár, teflt mikið á mótum saman og stúderað. Í dag þurftu þeir hinsvegar að berjast!

Byrjunin var nokkuð hefðbundinn Semi-Slavi, byrjun sem Guðmundur hefur mikið teflt og gengið vel með. Staðan virtist meira og minna í jafnvægi, Guðmundur gaf eftir biskupaparið en gaf ekki færi á sér fyrr en hann leyfði 25.Hd6 hjá Helga og í kjölfarið kom fréttablaðsleikurinn 28.Rxf5! og svarta staðan hrundi.

Sterkur sigur hjá Helga sem opnar mótið upp á gátt. Guðmundur eftir allt saman ekki ósigrandi en byrjunin fékk mann til að halda það! Framhaldið verður skemmtilegt hjá báðum!

Baráttuskák sem snerist til Helga eftir Hd6 og Rxf5

 

Bragi Þorfinnsson – Dagur Ragnarsson

Dagur hefur fram að þessu verið ein af hetjum mótsins en á tímabili leit út fyrir að góð byrjun hans myndi taka smá högg í umferð dagsins.

Bragi beitt Jobava-London systeminu sem varð loks að hálfgerðu uppskiptaafbrigði í Caro-Kann. Stöður sem alveg er hægt að tefla á báða bóga og Bragi lagði gildru fyrir Dag með leiknum 18.Db6. Dagur missti líklegast af peði sem Bragi gat unnið en möguleiki er að hann hafi hreinlega fórnað því fyrir sóknarfæri. Bragi hinsvegar fékk mun betra í kjölfarið.

Samkvæmt bestu taflmennsku var sókn Dags semsagt ekki að ganga upp en í skák tveggja mennskra skákmanna sem ekki eru búnir tölvuforritum getur allt gerst. Bragi lék af sér í vörninni með 26.Rg6?? en hann hefði líklega tryggt unnið tafl með 26.Rh3.

Dagur nýtti færið og hrifsaði til sín frumkvæðið og neyddi Braga til að gefa drottninguna fyrir nægar bætur þegar kemur að liðsafla en engan veginn þegar kemur að virkni liðsafla. Dagur stóð því til vinnings. Bragi barðist hinsvegar áfram og rokkaðist skákin úr því að vera jöfn í vinning á svart og loks gafst Dagur upp á vinningstilraunum í lokin og þráskákaði. Mögulega voru enn vinningsmöguleikar í boði þá en staðan mjög furðuleg og erfitt að meta.

Bragi fékk stóran plús á grafið en það snerist alveg við eftir vitlausan riddaraleik í vörninni hjá Braga. Dagur hefði líklega átt að klára dæmið en missti skákina í jafntefli í lokin.

 

 

Útsending 4. umferðar

Björn Ívar Karlsson kíkti aftur og aðstoðaði með skákskýringar dagsins!

 

Úrslit 4. umferðar

Sviptingar í umferð dagsins og þrjár sigurskákir.

Staðan eftir fjórar umferðir

Fjórir jafnir með 3 vinninga og gæti varla verið mikið meira spennandi!

Pörun í 5. umferð

Hver tekur forystu? Enginn af efstu mönnum tefla saman og því margt sem getur gerst. Dagur og Guðmundur fá hvítu mennina og þurfa að sækja. Þröstur og Margeir mætast í baráttu vizkualdurs meistarana.

Svipmyndir úr 4. umferð

Smá tæknilegir örðugleikar í byrjun umferðar en Páll og Björn Ívar tækluðu það eins og meistarar!
Dagur hefur byrjað vel og er með efstu mönnum
Mikilvægt að hafa gott kaffi!

IslandsmotSkak