Nokkuð var um sviptingar í sjöttu umferð á Íslandsmótinu í skák. Guðmundur Kjartansson er orðinn einn efstur en hann vann sína skák gegn Gauta Páli Jónssyni. Margeir Pétursson hristi af sér slenið og lagði Hjörvar Stein Grétarsson að velli. Dagur Ragnarsson tapaði einnig sinni skák og Helgi Áss náði ekki að pressa til sigurs gegn Þresti Þórhallssyni.

Kíkjum á gang mála í umferð dagsins.

Gauti Páll Jónsson – Guðmundur Kjartansson

Guðmundur jafnaði taflið fljótt og tók yfir frumkvæðið í skarpri Nimzo indverskri vörn þar sem Gauti beitti 4.f3 afbrigðinu. Staðan varð fljótt þægileg hjá Guðmundi og hann stýrði vinningnum af kostgæfni í hús.

 

Skák þar sem Guðmundur hafði tökin meira og minna allan tímann

 

 

Björn Þorfinnsson – Dagur Ragnarsson

Björn Þorfinnsson fór í sína víðfrægu „ICC árás“ eða eins og hann kallar það stundum „Pundað með pýramídanum“

Björn hefur unnið marga sterka skákmenn með þessari uppstillingu og sérstaklega í skákum á netinu hafa margir heimsfrægir stórmeistarar legið í valnum. Snemma stefndi í að Dagur yrði enn eitt höfuðleðrið sem Björn myndi ná með þessari byrjun en honum virtist fatast flugið og leyfa drottningaruppskipti.

Eftir uppskiptin byrjaði Björn hinsvegar að tefla eins og Anatoly Karpov og bætti stöðuna smám saman jafnt og þétt með því að hafa betri peðastöðu og staðsetningu manna. Flottur sigur hjá Bjössa sem setur stórt strik í reikninginn hjá Degi.

Mjög Karpovleg hvernig hvíta grafið fer upp hægt og bítandi

 

Bragi Þorfinnsson – Vignir Vatnar Stefánsson

Bragi beitti London uppstillingu gegn hollenskri vörn Vignis. Bragi fékk meira rými en enga sjáanlega eða augljósa leið til að bæta stöðuna mikið. Bragi hinsvegar tók Rússann á þetta og var ekkert að flýta sér, þreifaði á stöðu svarts hér og þar þangað til hann lét loks til skarar skríða á réttum tímapunkti. Þétt skák hjá Braga en Vignir hlýtur að vera orðinn þreyttur á hversu vel menn tefla með honum með hvítu mönnunum!

Braga alltaf með betra og tók svo alveg yfir í lokin, þétt skák hjá honum

 

 

Helgi Áss Grétarsson – Þröstur Þórhallsson

Helgi Áss setti mikla pressu á Þröst í drottningarlausu miðtafli úr Katalan byrjuninni. Helgi hafði á tíma mun betra samkvæmt tölvunum en aldrei neitt rakið. Þröstur varðist af mikilli hörku og seiglu og loks sættust menn á skiptan hlut í endatafli þar sem staðan hafði einfaldast töluvert.

 

Helgi eiginlega alla skákina með betra en aldrei nóg til að klára

 

 Hjörvar Steinn Grétarsson – Margeir Pétursson

Bogo-indversk vörn Margeirs leit út fyrir að vera til þess eins ætluð að halda velli, hvítur á að fá nokkuð auðveldar og aðeins betri stöður gegn þessu afbrigði. Sökum þess kom Hjörvari kannski í opna skjöldu þegar Margeir sneri skyndilega vörn í sökn með kröftugum peðsleikjum 15…b5 og 18…d5 sérstaklega. Eftir það opnuðust flóðgáttir og úr varð æsispennandi skák þar sem Margeir tók frumkvæðið og náði að greiða úr skemmtilegum flækjum sem upp komu. Glæsilegur og sanngjarn sigur sem breytir miklu í toppbaráttunni.

Það sést vel á grafinu hvernig skákin snerist Margeiri í vil

Útsending 6. umferðar

Úrslit 6. umferðar

Fjórar sigurskákir og aðeins eitt jafntefli í umferð dagsins. Guðmundur með mikilvægan sigur!

Staðan eftir sex umferðir

Guðmundur fær smá pláss á toppnum frá næstu mönnum en Helgi Áss er aðeins hálfum vinningi á eftir og svo tveir vinningi á eftir.

Pörun í 7. umferð

Skák Dags og Hjörvars er athyglisverð, báðir þurfa í raun sigur hér! Guðmundur mætir Birni Þorfinns.

Svipmyndir úr 6. umferð

Skákir í pgn umferði 1-6

IslandsmotSkak

Aðrir tenglar: