Úrslitaeinvígi Jóhönnu Bjargar Jóhannsdóttur og Lenku Ptácníková um Íslandsmeistaratitil kvenna fer fram fimmtudaginn 24. júní nk. Eins og kunnugt er enduðu þær jafnar í efsta sæti mótsins með 5,5 vinning í sex skákum.
Í úrslitakeppninni er notast við sama fyrirkomulag og í Íslandsbikarnum og á Heimsbikarmótinu í Sochi.
- Tefldar eru tvær atskákir, 25+10
- Ef jafnt verða tefldar tvær atskákir, 10+10
- Ef enn jafnt, verða tefldar tvær hraðskákir, 5+3
- Ef enn jafnt, þá tefld bráðabanaskák þar sem hvítur fær 5 mínútur á móti 4 mínútum svarts. Tvær sekúndur í viðbótartíma eftir 60 leiki. Svörtum dugar jafntefli til sigurs.
Að sjálfsögðu verður einvígið í beinni lýsingu í Skákvarpinu.
Það verður teflt í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur, Faxafeni 12.