Lenka Ptácníková varð rétt í þessu Íslandsmeistari kvenna eftir að hafa unnið Jón Þór Bergþórsson í tíundu og síðustu umferð Opna Íslandsmótsins í skák. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Elsa María Kristínardóttir eru í skipta öðru sæti og Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, sem situr enn að tafli gegn Dawid Kolka, gæti bæst við í þann hóp vinni hún skákina.

Rafmagnað loft er í Turninum fyrir einvígi Hannesar og Björns um Íslandsmeistaratitilinn sem hefst kl. 18 í kvöld.

Fyrirkomulag úrslitakeppninnar er sem hér segir:

Tefldar verði tvær atskákir (25+10). Verði keppendur enn jafnir þá styttist tíminn (10+10) og svo enn í (5+3). Verði enn jafnt verður tefld Armageddon-skák, hrein úrslitaskák (hvítur með 5 mínútur og svartur með 4 mínútur – ein sekúnda bætist við á leik hjá báðum eftir 60 leiki).