Það hefur líklega ekki farið framhjá skákmönnum að í gær, sunnudag, tefldi Team Iceland sína fyrstu alvöru viðureign í Heimsdeildinni í netskák. Andstæðingur dagsins var nokkuð þétt lið Argentínumanna, sem hefur úr að spila talsvert sterkara liði en mætti til leiks í gær.

Leifturskákin

Fyrst fór fram viðureign liðana í leifturskák, en sú keppni er sjálfstæð og óháð hraðskákkeppninni. Oftast eru þetta þó sömu lið og eru viðureignirnar því oftast tefldar saman. Einhverjar undantekningar verða þó á því í vetur, enda leifturskákin tefld í einni deild (hraðskákin í þremur) og mætum við því örfáum liðum úr neðri deildunum í leifturskákinni.

Lengi leit út fyrir að Argentína næði ekki að manna lágmarksfjölda borða (10 borð), en á síðustu metrunum heltust þeirra menn inn í mótið og úr varð að liðin tefldu á 27 borðum! Það var nokkuð athyglisvert að sjá hversu samstilltir Argentínumenn voru þegar kom að mætingu, en líklega hefur þar verið um einhverskonar taktík að ræða. Lið Íslands lét sér þó fátt um finnast og gjörsigraði lið þeirra 44 – 10!

Skoða má viðureign liðanna í leifturskákinni hér og stöðuna í deildinni hér.

Hraðskákin

Næst var komið að hraðskákinni. Notast er við tímamörkin 5+2 í hraðskákdeildinni og þurfa lið í 1. deild að manna að lágmarki 20 borð, að öðrum kosti tapast viðureignin.

Aftur voru Argentínumenn lengi að mæta á svæðið, en gerðu það þó að lokum og úr varð að liðin mættust á 37 borðum og voru Íslendingar umtalsvert fleiri en það. Því miður voru því nokkrir í okkar liði sem fengu ekki andstæðing að þessu sinni. Þeim sem ekki fengu andstæðing er sértaklega þakkað fyrir að mæta til leiks í dag, en þeirra framlag var engu að síður gríðarlega mikilvægt, því liðið í heild var umtalsvert sterkara en lið andstæðingana, en það hefði verið erfitt án þeirra þátttöku!

Líkt og í leifturskákinni var Ísland með umtalsvert sterkara lið og kjöldró lið Argentínumanna, 61,5 – 12,5!

Afar glæsilegur sigur og mikilvægur fyrir framhaldið, því næstu þrír andstæðingar verða gríðarlega stór og erfið lið Serba, Úkraínumanna og Rússa (í þessari röð).

Skoða má viðureign liðanna nánar hér.

Staðan í hraðskákdeildinni

Staðan í hraðskákdeildinni er þannig að Team Iceland er sem stendur í 1. sæti! Liðið stendur afar vel þegar kemur að stigaútreikningi, en hann virkar þannig að fyrst eru mótsstig, því næst innbyrðis viðureignir, þar á eftir Sonneborn–Berger stig og að lokum er vinningshlutfall, en þar er Team Iceland með 83% eftir viðureign dagsins.

Skoða má stöðuna nánar hér.

Næst á dagskrá

Næsti andstæðingur er gríðarlega öflugt lið Serba, en þeir unnu allar viðureignir sínar á síðasta keppnistímabili. Líklega fer sú viðureign fram næsta sunnudag (14. okt) en nánari upplýsingar verða birtar fljótlega.

v/hefst v/lýkur Vika nr. Umferð Teflum við Fer fram
01. okt 07. okt 1 1 Argentina Live Chess 07. okt kl. 20
08. okt 14. okt 2 2 Srbija Tim
15. okt 21. okt 3 Frí
22. okt 28. okt 4 3 Team Ukraine
29. okt 04. nóv 5 4 Team Russia
05. nóv 11. nóv 6 Frí
12. nóv 18. nóv 7 5 Ecuador Live Chess
19. nóv 25. nóv 8 6 Team Slovakia
26. nóv 02. des 9 Frí
03. des 09. des 10 7 Team Peru
10. des 16. des 11 Adjustments
17. des 23. des 12 8 Úrslit 4 eftstu og 4 neðstu
24. des 30. des 13 Frí
31. des 06. Jan 14 9 Úrslit 4 eftstu og 4 neðstu
07. Jan 13. Jan 15 Frí
14. Jan 20. Jan 16 10 Úrslit 4 eftstu og 4 neðstu
21. Jan 27. Jan 17 Adjustments
- Auglýsing -