Ritstjóri, Skák.is, bregður ekki af vana sínum og spáir í spilin fyrir Íslandsmót skákfélaga. Óvenju litlar sviptingar voru á félagaskiptamarkaði þetta árið. Stærsta nafnið sem skipti um félag í haust var FIDE-meistarinn Ingvar Þór Jóhannesson.
Talandi um Ingvar. Í dag byrjar Skák-hlaðvarpið eftir smáhlé. Við Ingvar munum bæði ræða heimsmeistaraeinvígið í skák sem hefst á morgun í Lundúnum og auðvitað Íslandsmót skákfélaga. Spá í spilin og skákina. Fyrsta skákin hefst kl. 15 og verður líklega lokið fyrir upphaf Íslandsmótsins.
Litlar breytingar á liðunum gætu gefið til kynna að geti orðið áþekk því sem gerðist í fyrra. Víkingar munu vinna annað árið í röð og Huginn er öruggur um annað sætið. Fjölnismenn eru líklegir til að hreppa bronsið. TR-ingar hafa sterkan mannskap en gengur ekki alltaf vel að fá sína sterkari menn að skákborðinu. Koma Ingvars styrkir sveitina og svo teflir væntanlega nýjasti FIDE-meistari landsins, Hilmir Freyr Heimisson, á efri borðunum.
Fallbaráttan verður hörð. Ritstjóri verður að spá KR falli eins og venjulega enda hefur sú spá reynst KR-ingum heilladrjúg í gegnum tíðina Hið sameinaða lið Breiðabliks, Bolvíkinga og Reyknesinga (BBR), sem hefur styrkt sig með komu Vignis Vatnars, ætti að vera um miðbik deildarinnar. Spái því að b-sveit TR-b haldi áfram sínu jójói á milli 1. og 2. deildar og falli með Vesturbæingum.
Spáin
- Víkingaklúbburinn
- Huginn-a
- Fjölnir
- TR
- SA
- BBR
- TG
- Huginn-b
- KR
- TR-b
Spáin fyrir 2. deild
Rétt eins og venjulega er erfitt að spá í spilin í 2. deild. Styrkleiki sveitanna afar áþekkur. Fjórar b-sveitir eru í næstefstu deild og a.m.k. þrjár þeirra líklegar til að vera í toppbaráttunni. Svo verður að geta Hróka alls fagnaða (HAF) sem fengu góðan liðstyrk í Daða Ómarssyni. Haukar geta á góðum degi verið í toppbaráttunni en mönnunin hefur stundum verið þeim vandamál og sveitin fljót að veikjast ef stigahæstu mennirnir tefla ekki. Afar erfitt er að spá í fallbaráttuna og nánast allt eins gott að kasta teningi Á teningum komu upp Fjölnir-b og SSON.
Spáin
- Víkingaklúbburinn-b
- BBR-b
- SA-b
- HAF
- Haukar
- Vinaskákfélagið
- Fjölnir-b
- SSON
3. deildin
Ritstjóri spáir Taflfélagi Akraness sigri í 3. deild. Ritstjóri telur fallliðin frá í fyrra c-sveitir Hugins og TR líklegar til að endurheimta sæti sín í 2. deild og svo gæti c-sveit BBR verið líkleg til árangurs. Átta mig ekki alveg á styrkleika hinnar sameinuðu sveitar Sauðkrækingar voru nærri sæti í 2. deild í fyrra. Ritstjóri spáir því að c-sveit Hugins fylgi TA upp í 2. deild.
Spá um efstu sæti
- TA
- Huginn-c
- TR-c
- BBR-c
- Sauðárkrókur
4. deildin
Ritstjóri er þar í miklu myrkri. B-sveit Haf-verja er líkleg til árangurs og svo gæti d-sveit TR verið sterk. Borgfirðingar voru nærri því að vinna sig upp í fyrra og ættu að vera líklegir. C-sveit Fjölnis gæti verið sterk.
Spá um efstu sæti
- UMSB
- HAF-b
- TR-d
- Fjölnir-c