Fríður flokkur frá Skák(her)deild KR hélt utan í gær til Kaupmannahafnar til að heyja þar „ Fullveldisslag í skák“  þann 1. desember til að minnast þess að 100 ár eru liðin frá því að Ísland varð laust undan yfirráðum Dana. 

Þetta er í annað sinn sem slík óformleg landskeppni er háð milli Dana og Íslendinga, nánar tiltekið  Skákdeildar KR og Öbro Skakforening í Kaupmannahöfn, þar sem Íslandsvinurinn Sören Bech Hansen, sem telft hefur 11 sinnum með KR í Deildarkeppninni, er í forsæti.

Fyrri keppnin „Danaslagur I.“ fór fram fyrir 10 árum vorið 2008 meðan allt lék í lyndi hér heima skömmu fyrir efnahagshrunið mikla.  Þá var teflt á 21 borði og KR vann nauman sigur í bráðabana eftir að staðan var jöfn 21 vinningur gegn 21 eftir hina formlegu 2ja skáka keppni við sama andstæðing.  Í þeirri ferð var einnig haldið til Árósa og Herning á Jótlandi, þar sem telft var á 22 borðum og sigur hafðist með 27 v. gegn 17.  Nú verður telft á 15 borðum með sama sniði en síðan hraðskák til úrslita ef með þarf.

Skákhersveitin nú er skipuð einvala liði eða þeim:  Kristjáni Stefánssyni, formanni og fyrirliða; Guðmundi G. Þórarinssyni, sem mun flytja fulleldisávarp; Jóni G. Friðjónssyni; Gunnari Skarphéðinssyni; Jóni Steini Elíassyni; Sigurði Áss Grétarssyni; Magnúsi V. Péturssyni; Ólafi Gísla Jónssyni; Gunnari Erni Haraldsyni; Ólafi Bjarnasyni; Gísla Gunnlaugssyni; Sveinbirni Jónssyni; Þórarni Hjaltasyni; Arnþóri S. Einarssyni sem kemur til liðs við sveitina frá Malmö og  Hrannari Baldurssyni, frá Stavangri.  Viðburðastjóri KR Einar S. Einarsson, sem skipulagt hefur ferðina situr hins vegar heima af persónulegum ástæðum.

Mynd frá keppninni fyrir 10 árum

Mynd frá Íslendingasveitinni fyrir 10 árum síðan.

 

- Auglýsing -