Mynd frá upphafi 10 skákarinnar. Mynd: Maria Emelianova/Chess.com.

Með tíunda jafntefli Magnúsar Carlsen og Fabiano Caruana á fimmtudaginn er slegið met í sögu heimsmeistaraeinvígja hvað varðar fjölda jafntefla í upphafi einvígis og bendir margt til þess að tveim síðustu skákunum með venjulegum umhugsunartíma ljúki einnig þannig.

Röð jafntefla er ekki óþekkt í heimsmeistaraeinvígjum og metið á því sviði var 17 jafntefli Karpovs og Kasparov haustið 1984 og í því sama einvígi stigu þeir síðan inn í nýja árið 1985 með 14 jafntefli í röð á samviskunni.

Ellefta skákin er á dagskrá í dag og sú tólfta á mánudaginn. Verði jafnt munu þeir tefla fjórar atskákir, 25 10, á miðvikudag. Verði enn jafnt tefla þeir tvær hraðskákir, 5 3. Verði enn jafnt munu þeir tefla fjögur slík hraðskákeinvígi til viðbótar og verði enn jafnt verða málin útkljáð með „Armageddon- skák“. Í því tilviki nægir þeim sem hefur svart jafntefli til að vinna einvígið en hefur minni tíma, 4 3 á móti 5 3.

Þær fjórar atskákir sem Magnús tefldi við Karjakin í New York fyrir tveim árum voru að margra mati hápunktur þess einvígis. Voru þær sýndar í beinni útsendingu á risatjaldi á Times Square í New York og á Rauða torginu í Moskvu og var síðasti leikur Magnúsar ógleymanlegur.

10. skák:

Fabiano Caruano – Magnús Carlsen

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 Rc6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 e5 6. Rdb5 d6 7. Rd5 Rxd5 8. exd5 Rb8 9. a4 Be7 10. Be2 0-0 11. 0-0 Rd7 12. b4

Fram að þessu hafa leikir fallið eins og í 8. skák en þá lék Caruana 12. a5. Hann hefur ekki áhuga á að sjá endurbætur Magnúsar.

12….a6 13. Ra3 a5 14. bxa5 Hxa5 15. Rc4 Ha8 16. Be3 f5 17. a5 f4 18. Bb6 De8 19. Ha3 Dg6 20. Bc7 e4 21. Kh1

21….b5!

Snilldarleikur í miðtafli sem býður upp á framhjáhlaup, 22. axb6 en þá kemur 22….Hxa3 23. Rxa3 f3! 24. gxf3 Re5 25. Hg1 Dh6! með ýmsum hótunum.

22. Rb6 Rxb6 23. Bxb6 Dg5?!

Vafasamur leikur sem Caruana gat nýtt sér með 24. Bxb5 t.d. 24….f3 25. gxf3! o.s.frv.

24. g3? b4 25. Hb3 Bh3 26. Hg1 f3 27. Bf1 Bxf1 28. Dxf1 Dxd5 29. Hxb4 De6 30. Hb5 Bd8 31. De1 Bxb6 32. axb6 Hab8 33. De3 Dc4 34. Hb2 Hb7 35. Hd1 De2 36. He1 Dxe3 37. Hxe3 d5 38. h4 Hc8 39. Ha3 Kf7 40. Kh2 Ke6 41. g4 Hc6 42. Ha6 Ke5 43. Kg3 h6 44. h5!

Eftir þetta blasir jafnteflið við. Svartur getur ekki þokað peðum sínum áleiðis.

44….Kd4 45. Hb5! Hd6 46. Ha4 Ke5 47. Hab4 Ke6 48. c4 dxc4 49. Hxc4 Hdxb6 50. Hxe4 Kf7 51. Hf5 Hf6 52. Hxf6 Kxf6 53. Kxf3 Kf7 54. Kg3

– jafntefli. Caruana sá ekki ástæðu til að tefla þetta frekar þó að hann væri peði yfir.

Fjölnir í efsta sæti á Íslandsmótinu

Fyrri umferð Íslandsmóts skákfélaga sem fram fór í Rimaskóla 8.-11. nóvember bauð upp á fjölmörg óvænt úrslit og er sú staða uppi eftir fimm umferðir af níu að skákdeild Fjölnis er efsta sæti.

Fjölnir vann stórsigur strax í 1. umferð og hélt uppteknum hætti þar til í fjórðu umferð er liðið tapaði fyrir reyndri A-sveit Hugins, 3:5, missti þá forystuna en náði henni aftur á lokadegi.

Staðan: 1. Fjölnir 31 v. (af 40) 2. Huginn 30½ v. 3. Víkingaklúbburinn 28½ v. 4. TR (a-sveit) 24½ v. 5. Taflfélag Garðabæjar 21½ v. 6. Breiðablik, Bolungarvík og Reykjanes 19 v. 7. SA 15½ v. 8. Huginn (b-sveit) 12½ v. 9. TR (b-sveit ) 11½ v. 10. Skákdeild KR 5½ v.

- Auglýsing -