Vignir Vatnar Stefánsson vann öruggan sigur á Skákþingi Reykjavíkur sem lauk á fimmtudagskvöldið, en hann hlaut 8½ vinning af 9 mögulegum. Næstur kom Birkir Ísak Jóhannsson með 7 vinninga. Þar sem fjórir efstu eru úr Kópavogi getur enginn þeirra borið titilinn, en skilmálar mótsins kveða á um að keppendur skuli vera búsettir í Reykjavík eða vera meðlimir í taflfélagi/skákdeild í höfuðborginni. Sæmdarheitið Skákmeistari Reykjavíkur 2025 féll í skaut Oliver Aroni Jóhannessyni.
Jósef Omarsson, 13 ára, hækkaði mest allra keppenda á Elo-stigum. Efstu menn urðu: 1. Vignir Vatnar Stefánsson 8½ v. (af 9) 2. Birkir Ísak Jóhannsson 7 v. 3.-4. Bárður Örn Birkisson og Benedikt Briem 6½ v. 5.-9. Oliver Aron Jóhannesson, Hilmir Freyr Heimisson, Arnar Milutin Heiðarsson, Ingvar Þór Jóhannesson og Jósef Omarsson 5½ v.
Þrátt fyrir yfirburðina komst Vignir komst nokkrum sinnum í hann krappan; Ingvar Þór missti af röktum vinningi gegn honum í 7. umferð og tveir sem eru á góðri siglingu þessa dagana, Birkir Ísak og Benedikt Briem, spilltu báðir góðum færum. Lítum á fjörlega teflda skák frá mótinu:
Skákþing Reykjavíkur 2025; 6. umferð:
Vignir Vatnar Stefánsson – Benedikt Briem
Slavnesk vörn
1. c4 e6 2. Rf3 d5 3. e3 Rf6 4. Rc3 c6 5. b3 Bd6 6. Bb2 O-O 7. Dc2 e5 8. cxd5 cxd5 9. Rb5 Rc6 10. Rxd6 Dxd6 11. d4
11. … Re4
Með 11. …Rb4! gat svartur jafnað taflið a.m.k., t.d. 12. Dd1 (ekki 12. … Dd2? Re4! og vinnur því að 13. dxe5 má svara með 13. … Dc5 14. Hc1 Da5! o.s.frv.) 12. … e4 13. Re5 Be6 o.s.frv.
12. a3 Bf5?
Mistök og hvítur nær yfirburðastöðu. Staðan er í jafnvægi eftir 12. … exd4 eða 12. … Dg6.
13. dxe5 Dh6 14. Dd1 g5 15. Rd4 Rxd4 16. Dxd4 g4 17. Bd3 Be6 18. O-O Rd2 19. Bxh7+ Kxh7 20. Dxd2 Hh8 21. f3 Kg7 22. g3 gxf3 23. Hxf3 Hac8 24. Haf1 Hc7 25. Df2 Hhc8 26. Hf6 Dh3 27. Df4 Hh8 28. Dg5+ Kf8 29. H1f2 Ke8 30. a4 Dh7!
Benedikt, tveim peðum undir, hefur náð að skapa sér mótspil. Hvítur er enn með unnið er það skortir á nákvæmni í úrvinnslunni.
31. h4 Hg8 32. Df4 Dd3 33. Kh2 Dxb3 34. h5?
Þetta er ekki leiðin. Best er 34. Bd4!
34. … Dd1! 35. Hh6 Kd8! 36. Dd4 De1 37. Dd2 Db1 38. Hhf6
Hvítur er búinn að missa þráðinn og svartur átti hér tvo góða leiki, 38. … Hc4 eða 38. … Kc8 með u.þ.b. jöfnum möguleikum.
38. … Hg5 39. Hh6 Hc4?
Of seinn. Hvítur getur nú unnið með 40. Da5+! b6 41. Hh8+ o.s.frv.
40. e4? Hg8 41. Da5+ Kc8 42. Dxa7 Kc7?
Tapar strax. Staðan er jöfn eftir besta leikinn, 42. … Hc2!
43. Hxe6! fxe6 44. Hf7+
– og svartur gafst upp.
Praggnanandhaa og Gukesh efstir í Wijk aan Zee
Það gekk á ýmsu á lokaspretti Tata Steel-mótsins í Wijk aan Zee um síðustu helgi. Praggnanandhaa hafði náð heimsmeistaranum Gukesh að vinningum fyrir lokaumferðina en báðir töpuðu skákum sínum í lokaumferðinni en urðu samt efstir: 1.-2. Praggnanandhaa og Gukesh 8½ v. 3. Abdusattorov 8 v. 4. Fedoseev 7 ½ v. 5.–6. Wei og Giri 7 v. 7. Harikrishna 6½ v. 8.-9. Keymer og Caruana 6 v. 10.-12. Erigiasi, Van Foreest og Sarana 5 ½ v. 13. Mendonca 5 v. 14. Warmerdam 4½ v.
Eins og venja er þegar menn verða jafnir í efsta sæti voru tefldar hraðskákir um nafnbót sigurvegara. Pragg hafði betur, 2:1.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 8. febrúar 2025.