Markús Orri (Mynd: Thor Kvakkestad)

Aleksandr Domalchuk-Jonasson og Markús Orri Óskarsson fara vel af stað á NM ungmenna í Borgarnesi en þeir hafa báðir fullt hús eftir fyrstu tvær umferðirnar. Framundan er hörð barátta um helgina þar sem tvær umferðir á dag verða tefldar í fimm flokkum.

Rennum yfir gang mála á fyrsta keppnisdegi

A-flokkur U20

Aleksandr Domalchuk-Jonasson er stigahæstur í flokknum og sýndi það meira og minna á fyrsta degi. Hann þurfti að hafa nokkuð fyrir sigri sínum í 1. umferð en fékk ákveðna gjöf í 2. umferð þegar Benedikt Briem ruglaðist verulega á línum og fékk nánast tapað eftir 5.leik hans!

Benedikt var meira og minna með tapað eftir 5…c6??

Luijten Apol, Aarni Odner and Rogvi Heinason Olsen hafa 1,5 vinning í toppbaráttunni. Benediktarnir íslensku hafa báðir 1 vinning. Benni Þóris hefur gert tvo jafntefli en þarf mögulega að leggja meira á stöðurnar. Þeir ættu báðir að geta stefnt á pall á mótinu


B-flokkur U17

Akureyringurinn Markús Orri Óskarsson sló í gegn á fyrsta degi og vann báðar sínar skákir og er í skiptu efsta sæti ásamt norskum skákmanni. Markús tefldi af miklu öryggi og verður gaman að fylgjast með honum um helgina.

Mikael Bjarki hafði ekki alveg stríðsgæfuna sín megin á fyrsta degi. Hann fékk í raun yfirburðatafl í fyrstu umferð gegn þriðja stigahæsta skákmanni flokksins en missti þráðinn í miðtafli. Mikael stóð svo nokkuð vel í 2. umferð en missti af glæsilegri leið til að fá unnið tafl.

Markús fær toppbaráttuskák á morgun og er kominn í ansi góða stöðu ef hann nær góðum úrslitum.

C-flokkur U15

Norðmaðurinn Evsuld Myagmasuren virðist ætla að vera í sérflokki í c-flokki. Tveir Finnar hafa fullt hús ásamt honum en eru ólíklegir miðað við stig að ná að skák honum…hver veit þó, Finnarnir hafa verið funheitir!

Josef Omarsson og Sigurður Páll Guðnýjarson ganga líklega ósáttir frá borði eftir fyrsta keppnidag. Þeir misstu báðir af góðum tækifærum en gera vafalítið betur um helgina.

D-flokkur U13

Finnarnir hafa verið sterkir og náð sér í ótrúlega 16 vinninga af 20 mögulegum á mótinu. Vorobyov frá Finnlandi er efstur með tvo af tveimur.

Birkir Hallmundarson vann gegn Emilíu í fyrstu umferð en lék klaufalega af sér snemma tafl í 2. umferð. Birkir sýndi hinsvegar mikinn karakter og vann sig aftur inn í skákina skiptamun undir og var á kafla með nánast unnið tafl en varð að lokum að sætta sig við jafntefli.

Birkir mætir Vorobyov í 3. umferðinni á morgun.

E-flokkur U11

Íslensku strákarnir tefldu vel í E-flokki í dag en uppskeran varð eiginlega minni en þeir áttu skilið.

(Mynd: Thor Kvakkestad)

Haukur Víðis Leósson vann gríðarlega vandaðan sigur gegn öðrum stigahæsta skákmanni flokksins í fyrri skák dagsins. Sænskur andstæðingur hans lá særður í valnum og að launum fékk hann erfiða skák gegn Pétri Erni Úlfarssyni í 2. umferð. Sá sænski hafði betur eftir algjörlega epíska baráttu. Báðar þessar skákir voru lengstu skákir hverrar umferðar fyrir sig.

Heilt yfir áttu íslensku strákarnir meira skilið en taflmennskan gríðarlega vönduð og er það eiginlega eftirtektarvert hvað byrjanataflmennska og taflmennskan heilt yfir virðist hafa tekið stórt stökk í þessum yngstu flokkum!

Haukur og Pétur munu gera vel um helgina, það er klárt!

Hörð keppni heldur áfram um helgina á Hótel Borgarnesi þar sem tvær skákir verða tefldar á dag. Áfram Ísland!

- Auglýsing -