Ef ég ætti að nefna þrjú atriði er varða arfleifð Friðriks Ólafssonar, sem verður 90 ára á morgun, myndi ég nefna þetta: Þegar hann settist að tafli þá var það viðburður, sprengikrafturinn í stílnum og hversu frábær fulltrúi skáklistarinnar hann hefur verið innan lands sem utan í meira en 75 ár.
En það eru þættir í fari hans sem eru kannski minna þekktir. Þegar við vorum að vinna saman að skákævisögu hans, sem HÍB gat út, ræddum við hin aðskiljanlegustu efni, perlu As Suli sem kalla má djásn arabískrar skáklistar, sem vinur hans Averbakh hafði upp úr þúsund ára gleymsku, uppruna hneftafls, Chaturanga og herför Alexanders mikla til Indlands árið 326 fyrir Krist. Á leið í „pílagrímsför“ til Portoroz árið 2012 gaukaði hann að mér merkri bók, Birth of a chess queen, eftir Marilyn Yalom sem fjallar m.a. um valdeflingu kvenna og mátt drottningarinnar á skákborðinu sem jókst til muna eftir landafundina miklu í kringum árið 1500 en Isabella Spánardrottning var einn helsti stuðningmaður leiðangra Kristófers Kólumbusar. Þar áður gat Friðrik sagt mér frá því hvar mætti fá góðar eftirlíkingar af Lewis-taflmönnunum vegna sýningar sem sett var upp í Þjóðmenningarhúsinu 2002 í tilefni 30 ára afmælis „Einvígis aldarinnar“ en um uppruna þessara gripa hófst mikil umræða síðar.
Þar sem borðleikurinn skák er stríðsleikur er freistandi að finna stöður sem minna á frægar orrustur, hernaðarmannnvirki og annað því efni tengt. Á hátindi ferils síns beitti Napóleon ofurefli liðs gegn höfuðstöðvum óvinaherja sinna. Atlaga Friðriks, 15. f4 og 21. Bf5, í eftirfarandi skák gat sannarlega minnt á hinn unga Napóleon sem sótti hratt fram, hiklaust og af djörfung:
Reykjavíkurskákmótið 1978:
Friðrik Ólafsson Bent Larsen
Aljekíns vörn
1. e4 Rf6 2. e5 Rd5 3. d4 d6 4. Rf3 g6 5. Bc4 Rb6 6. Bb3 Bg7 7. Rg5 d5 8. O-O Rc6 9. c3 Bf5 10. g4 Bxb1 11. Df3 O-O 12. Hxb1 Dd7 13. Bc2 Rd8 14. Dh3 h6
15. f4 hxg5 16. f5 Re6 17. fxe6 Dxe6 18. Bxg5 c5 19. Kh1 cxd4 20. cxd4 Hfc8
21. Bf5 gxf5 22. gxf5 Dc6 23. Hg1 Dc2 24. Hbe1 Kf8 25. f6
– og Larsen gafst upp.
Kannski vert að rifja það upp að Waterloo-orrustan 1815 tapaðist m.a. vegna þess að Napóleon var þar liðfærri svo nam um 45 þúsund hermönnum. Í útlegðinni á Sankti Helenu taldi hann að sigurinn hefði gengið sér úr greipum m.a. vegna þess að herforingjar hans hafi reynst óttalegar heybrækur þegar á hólminn var komið.
Víkur þá sögunni að Maginot-línunni, varnarvirki sem reist var á fjórða áratug síðustu aldar við landamæri Frakklands, Sviss, Belgíu og Lúxemborgar og var ætlað að standast atlögur atlögur nasista. Skoðum þekkt skákdæmi:
Lausnin er þessi: 1. Ba4+! Kxa4 2. b3+ Kb5 3. c4+ Kc6 4. d5+ Kd7 5. e6+ Kxd8 6. f5 og þungu fallstykkin komast ekki yfir víglínuna.
„Vélarnar“ meta stöðuna unna á svart en við vitum betur.
Svæðamót í Reykjavík 1975:
Jan Timman – Friðrik Ólafsson
Tangarsókn kemur úr tveimur áttum stóð einhvers staðar. Þessi skák hafði farið í bið og staða Friðriks erfið. Hann lék sterkum biðleik, Timman missti þráðinn og svo kom þessi staða upp:
47. … h3+! 48. Kxh3 De3+ 49. Kg2 Dg5+.
Nú fellur biskupinn og riddarinn ver kónginn vel. Timman gafst upp.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 25. janúar 2025