Skákþing Reykjavíkur Gunnar Björnsson, forseti SÍ, lék fyrsta leikinn fyrir Jósef Omarsson sem tefldi við Vigni Vatnar Stefánsson. Vignir vann en mótið heldur áfram næstu vikur og lýkur 5. febrúar. Tefldar verða níu umferðir. — Ljósmynd/Daði Ómarsson

Fyrir um tveimur mánuðum kom inn á háskólabókasafnið í Cambridge ungur hálfsköllóttur Þjóðverji með fremur tjásulegt skegg og þykk gleraugu. Hann bað um að fá að líta á gömul handrit, svokölluð Michelides-handrit, og þegar starfsmaður safnsins hafði sýnt honum handritin renndi hann í gegnum þau og virtist lesa þau jafn reiprennandi hvort sem þau voru á koptísku eða grísku … Árið 1980 hefur verið mjög óvenjulegt fyrir dr. Robert Hübner. Hann lagði fræðimennsku á hilluna og nú eftir samfellda sigurgöngu er farið að hilla undir takmarkið sem að var stefnt: réttinn til að skora á Anatoly Karpov. Galdurinn við velgengni Hübners er gífurlegur undirbúningur og nákvæmni. Hann rannsakaði allar skákir Portisch, og dvaldi tvær vikur í Kanada á heimili sérfræðings í einkennum ungverskrar þjóðarsálar. Þegar einvígið hófst þekkti Hübner Portisch betur en Portisch þekkti sjálfan sig … Robert Hübner lifir ákaflega einföldu lífi. Hann býr í litlu herbergi og hefur hvorki sjónvarp né síma.“

Þetta eru brot úr grein eftir William Hartston sem birtist í Morgunblaðinu í desember 1980 í aðdraganda úrslitaeinvígis áskorendakeppninnar. Robert Hübner, sem féll frá 5. janúar sl., 76 ára að aldri, var sterkasti skákmaður sem Þjóðverjar hafa eignast. Nægir að nefna að hann vann gullverðlaun fyrstaborðsmanna á Ólympíumótinu í Skopje 1972 og náði sæti í áskorendaeinvígjunum árin 1971, 1980, og 1983. Lýsingin hér að framan gæti átt við sannkallaðan furðufugl, en flestum þeim sem þekktu hann ber saman um að Hübner hafi verið hinn þægilegasti maður. En hann stóð fast á sínu; á mótum vildi hann ekki afhenda frumrit skorblaða sinn og sniðgekk mót ef lokaumferðin byrjaði snemma morguns. Hann fylgdist ekki mikið með fréttum því að hann treysti sagnfræðinni betur til að skera betur úr um það hvað væri satt og rétt.

Þótt hann hafi aðeins einu sinni teflt hér á landi var hann vel kynntur og ekki síst vegna samvinnu við Guðmund Sigurjónsson stórmeistara en þeir voru á svipuðu reki. Eftir svæðamótið í Luzern vorið 1979 bað hann Guðmund að hjálpa sér í gegnum næstu stig heimsmeistarakeppninnar, millisvæðamótið í Ríó þar sem hann varð efstur við þriðja mann og áskorendaeinvígin 1980 en Hübner vann þá einvígi við Ungverjana Adorjan og Portisch. Komst þó ekki fram hjá síðustu hindruninni, sem var Viktor Kortsnoj. Yfirgengileg athygli og ágengni v-þýskra fjölmiðla er talin hafa slegið hann út af laginu og hann hætti keppni að loknum átta skákum.

Í Luzern ’79 höfðu okkur sem tefldum þar verið send íslensku blöðin og tungumálið vakti forvitni Hübners og hann náði inntaki textans áreynslulaust. Margt sem hann sagði þá olli mér talsverðum heilabrotum. Hann virtist efast mikið um eigið ágæti: „Standi ég frammi fyrir tveimur valkostum vel ég alltaf þann lakari,“ sagði hann einhverju sinni. Ein uppáhaldsskákbók mín er eftir Hübner: 25 skýrðar skákir. Þó get ég varla haldið því fram að ég hafi lesið hana alla og ástæðan er m.a. þessi:

Tilburg 1981

Hübner – Portisch

Hübner hafði fórnað manni og lék nú 31. Rxg7. Um þann leik skrifaði hann 15 blaðsíður! Á öðrum stað er einn leikur tekinn til meðferðar – 10 blaðsíður.

Í inngangi bókarinnar bregður fyrir leiftrum úr sögu Forn-Grikkja og Rómverja. Í niðurlagi þess kafla er eins og höfundur eigi í alvarlegu samtali við rómverska spekinginn Markús Kató sem átelji hann fyrir leti og óvönduð vinnubrögð.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 11. janúar 2025

 

- Auglýsing -