Íslensku keppendurnir á Janus Open í Færeyjum stóðu sig vel í dag þegar kappskákhluti mótsins hófst í dag. Í atskákinni í gær voru fjórar af sex íslensku keppendunum með fullt hús en eftir daginn í dag stendur Adam Omarsson einn eftir á toppnum með 5 vinninga af 5 mögulegum!

Gauti Páll byrjaði daginn vel og tók alþjóðlega meistarann Högna Egilstoft í skoðunarferð um Pýradímana, í anda Björns Þorfinnssonar! Glæsileg sóknarskák hjá Gauta!

Símon náði einnig að spóla sig betur úr miðtaflsflækjum í sinni skák í fjórðu umferð gegn Noah Krug Wahlgreen (2148).

Adam náði sér í góðan sigur í fjórðu umferð með því að leggja FM Paulius Meskenas (2161) í f3-afbrigðinu í Nimzanum. Adam virtist skilja stöðuna betur og náði glimrandi sókn sem bar árangur.

Loks var gleðilegt í 4. umferð að sjá íslensku landsliðskonuna Hallgerði Þorsteinsdóttur verjast fimlega og leggja að velli færeyska landsliðsmanninn Rogva Egilstoft sem er FIDE-meistari.

Adam, Gauti og Símon efstir eftir fjórðu umferð ásamt danska FIDE meistaranum Mikkel Vinh Loftgaard (2235) með fullt hús.

Gauti var traustur og gerði jafntefli við Mikkel og hafði á tíma umframpeð þannig að færin voru meira hans megin.

Góður skákdagur hjá Gauta!

Adam og Símon mættust innbyrðis á toppnum í 5. umferð. Adam náði að véla peð af Símon í miðtaflinu sem gerði útslagið.

Adam er því efstur með 5 vinninga en Gauti er jafn öðrum í 2. sæti með 4,5 vinning. Nokkrir Íslendingar hafa 4 vinninga í 5-14. sæti. Glimrandi árangur það sem af er móti!

Mótinu lýkur á morgun með tvöfaldri umferð.

 

- Auglýsing -