Alþjóðlegu meistararnir Dagur Ragnarsson og Aleksandr Domalchuk-Jonasson náðu sér báðir í 1,5 vinning í tveimur skákum á þriðja keppnisdegi á alþjóðlegu móti í New York, Blitz GM/IM Invitational. Greinilegt að þeir mættu endurnærðir til leiks eftir að hafa skellt sér á leik New York Knicks og Minnesota Timberwolves í gærkvöld.

Á leiknum urðu þeir vitni að ótrúlegu atviki þegar New York Knicks aðdáandi vann sér inn forláta KIA bifreið með því að negla niður langskoti frá miðju, sjón er sögu ríkari!

En snúum okkur að taflmennskunni! Aleksandr var í fínum málum í gær með 2,5 vinning af 3 og hélt uppteknum hætti í 4. umferð, fyrri umferð dagsins. Aleksandr hafði svart gegn CM Nitesh Cherukuri (2179). Upp kom frönsk vörn, advance variation.

Hvítur ákvað snemma að gefa hvítreitabiskup sinn fyrir riddara svarts á f5. Svartur fær tvípeð á f-línunni og svo virðist sem hvítreitabiskup hans sé meira og minna grafinn inni. Svartur hefur hinsvegar margoft sýnt að þessi biskup lúrir og er til í tuskið þegar staðan opnast. Aleksandr sýndi vel möguleika svarts í þessari skák, fyrst byggði hann upp stöðuna á drottningarvæng en þegar biskup hans vaknaði til lífsins á kóngsvæng var svarta staðan strategískt unnin!

Dagur tók skynsama ákvörðun með svörtu og bauð gamalreynda stórmeistaranum Leonid Yudasin jafntefli snemma tafls. Yudasin var ekki í baráttuhug og jafntefli fín úrslit með svörtu í stöðu sem hvítur hefði getað pínt til lengri tíma hefði hann verið í vígahug!

Dagur fékk því ágætis hvíld og nýtti hana til að mæta sjálfur í vígahug í 5. umferð. Dagur hafði þá hvítt gegn FM Alexandre Kretchetov (2130). Dagur hefur undanfarið mest verið í 1.Rf3 en lék 1.e4 í þessari skák og hefur væntanlega viljað setja smá próf fyrir Kretchetov í byrjuninni.

Segja má að hugmynd Dags hafi að mestu gengið upp. Dagur fékk hættuleg sóknarfæri með staka-peðs stöðu og fékk Dagur mjög athyglisverðan möguleika snemma tafls.

Dagur lék hér 18.Rc4 sem er aðeins betra á hvítt. Tölvurnar eru hinsvegar hrifnar af 18.Dg5! sem setur svartan í ákveðinn bobba. Eini leikurinn er 18…Be6 því annars hangir annaðhvort á e7 eða f5. Til dæmis 18…Hae8? 19.Rxf7 Hxf7 20.Dxf5!! Eftir 18…Be6 vinnur hvítur peð eftir 19.Rxf7 Bxf7 20.Hxe7 og getur pressað stöðuna án þess að hafa áhyggjur.

Skákin sjálf var lengi vel í dýnamísku ójafnvægi og það var ekki fyrr en eftir 59…Df6?? sem að Dagur náði loks að klára andstæðing sinn.

Á sama tíma fékk Aleksandr gríðarlega hættuleg færi og setti góða pressu á Yudasin. Svarta kóngsstaðan var nokkuð beygluð en Aleksandr náði ekki að nýta stöðuyfirburði sína að þessu sinni og reynsla Yudasin sagði til sín og náði hann að tryggja jafnteflið að lokum.

Á morgun er aftur tvöföld umferð en fyrir hana er Aleksandr í skiptu fyrsta sæti með 4 vinninga af 5 mögulegum en Dagur situr í 4. sæti með 3 vinninga að loknum þessum fimm skákum.

- Auglýsing -