Ofurmótið í Wijk aan Zee í Hollandi, Tata Steel mótið,  er iðullega fyrsta mótið á dagatalinu þegar nýtt ár minnir á sig. Að þessu sinni sakna margir Magnus Carlsen sem hefur verið reglulegur keppandi á mótinu en er nýbúinn að gifta sig og hvíldi sig allavega í ár!

Þrátt fyrir fjarveru Magnus Carlsen eru margir spennandi keppendur mættir til leiks enda er það yfirlýst stefna mótshaldara að hafa skemmtilega skákmenn sem tefla til sigurs á þátttakendalistanum. Heimsmeistarinn Gukesh verður að teljast líklegur en auk hans eru þeir Caruana, Abdusattorov og Arjun Erigaisi líklegir til afreka.

Fyrsta umferðin fór fram með látum en flestir fylgdust spenntir með „jómfrúarkappskák“ Gukesh eftir að hann náði Heimsmeistaratitlinum. Gukesh stýrði hvítu mönnunum gegn heimamanninum Anish Giri sem hefur gengið ansi vel á heimavelli síðustu ár.

Anish Giri á góðri stundu eftir sigur á mótinu árið 2023. Mynd; Heimasíða mótsins.

Niðurstaðan varð algjörlega mögnuð skák þar sem Giri virtist vera að gera allt rétt til að leggja heimsmeistarann að velli. Giri fékk hættulegt frumkvæði snemma tafls með svörtu og Gukesh þurfti virkilega að passa upp á sína leiki

Í þessari stöðu fann Giri eina vinningsleikinn í miklu tímahraki. 37…Be4!! ætti að tryggja svörtum vinningsstöðu og Giri fann leikinn!

Hægt er að fylgjast með lokaandartökum hér:

Þrátt fyrir að finna þarna eina vinningsleikinn þurfti Giri að finna einn leik til viðbótar! Giri stóð til vinnings en…

…lék hér 35…Db6?? sem sneri taflinu við þar sem hvítur á 36.Df6+ og bjargar sér. Í stað þess hefði 35…Rg4!! verið gríðarlega vandaður leikur og hvítur er leiklaus. Til dæmis 36.Hxe4 þá kemur 36…Db6+ og hvítur er bara mát! Hvítur verður að gefa drottninguna. Gríðarlega svekkjandi fyrir Giri!

Augu skákheimsins hafa undanfarið einnig verið á öðrum Indverja, nefnilega honum Arjun Erigaisi (2801). Erigaisi hefur náð 2800 stiga múrnum með nánast óslitinni sigurgöngu á opnum mótum og Ólympíuskákmótinu en hefur nú loksins brotist inn í elítumótin og ekki hægt að líta lengur framhjá honum!

Arjun Erigaisi hefur farið með himinskautum undanfarið. Mynd: Lennart Ootes/Tata Steel.

Að því sögðu þá byrjaði Erigaisi mótið á ákveðinni magalendingu. Hinn margreyndi landi hans, Pentala Harikrishna, hélt ró sinni með hvítu gegn drekaafbrigði sikileyjarvarnar. Harikrishna hefur lengi þótt einar traustur skákmaður og góður endataflsmaður. Þegar Erigaisi gaf andstæðingi sínum kost á að fá tvo hróka fyrir drottningu beið ekkert nema afturkreystingur svörtu stöðunnar og Harikrishna sýndi mátt sinn og megin!

Aðeins ein skák til viðbótar endaði ekki með jafntefli. Þýska ungstirnið Vincent Keymer náði þá í góðan og mikilvægan sigur með svörtu. Vincent mætti Leon Luke Meondonca sem vann B-flokkinn í fyrra og tryggði sér sæti á þessa mikilsvirta móti.

31.Hc1?? var skelfilegur leikur (31.Dxh5+ ætti að vera aðeins betra á hvítt þó staðan sé ekki alveg ljós) og eftir 31…Dxh3 gafst hvítur upp!

Framundan er langt og strangt mót þar sem hér er um að ræða 13 umferða mót og ljóst að mikið á eftir að gerast. Skak.is mun hafa einhverjar gætur á mótinu þó erfitt sé að lofa daglegum uppfærslum!

- Auglýsing -