Eins og undanfarin ár gengst Skákdeild KR fyrir mótaröðinni um Taflkóng Friðriks , sem fram fer næstu fjögur mánudagskvöld vestur í skáksal KR í Frostaskjóli og hefst þann  28. janúar, kl.  19.30.

Upphaflega var efnt til þessarar keppni á vegum  Gallerý Skákar, í Bolholti árið 2012 sem lið í viðburðahaldi í tilefni af „Skákdeginum“ sem SÍ og Skákakademía Reykjavíkur efndu til í fyrsta sinn það ár á afmælisdegi Friðriks Ólafssonar, 26. janúar, fyrsta stórmeistara okkar og heiðursborgara Reykjavíkur, sem síðan hefur unnið sér fastan sess í íslensku skáklífi.

Um er að ræða 4ra kvölda GrandPrix mótaröð þar sem átta efstu sæti í hverju móti telja til stiga  (10-8-6-5-4-3-2-1). Keppt er um veglegan farandgrip, taflkóng úr Hallormstaðabirki, merktan og áletraðan af meistaranum. Þrjú bestu mót hvers keppanda reiknast til stiga og vinnings. Sigurvegarinn ár hvert fær nafn sitt skráð gullnu letri á stall styttunnar og fagran verðlaunagrip til eignar .

Nöfn fyrrv. sigurvegara mótaraðarinnar,  þeirra Gunnars Skarphéðinssonar; Gunnars  Birgissonar;  Gunnars  Kr. Gunnarssonar,  Gunnars Freys Rúnarssonar,  Ólafs B. Þórssonar,   Guðfinns R. Kjartanssonar  og  Arnars Leós Jóhannssonar  prýða nú hinn sögulega grip.

Telfdar verða 9 umferðir með 7  mínútna umhugsunartíma á skákina. Mótin eru að sjálfssögðu öllum opin  óháð aldri og félagsaðild enda þótt keppendur séu ekki með í öllum mótunum.   Vegleg verðlaun fyrir efstu menn og aukavinningar fyrir aðra.  Þátttökugjald er kr. 500 en aðeins lægra fyrir fastagesti.

Skákdeginum verður startað og  honum fagnað á  Árdegismóti KR í fyrramálið sem hefst kl. 10.30 -13.00 þar sem teflt verður afmælisbarninu til heiðurs og skáklistinni til dýrðar.  Góð verðlaun og viðurgerningur. Veri sem flestir velkomnir.   / ESE

- Auglýsing -