Myndskeyting: ESE

Dagur skákarinnar og Friðriks Ólafssonar var sannarlega tekinn með trompi vestur í KR árla á laugardaginn var, eins og boðað hafði verið. Fjöldi galvaskra skákunnenda og eldhressra morgunhana voru mættir til tafls í Frostaskjólinu, alls yfir tuttugu talsins, þess albúnir að tefla afmælisbarninu til heiðurs og skákgyðjunni til dýrðar á hinu vikulega árdegismóti KR sem tileinkað var Skákdeginum.

Áður en sest var að tafli ávarpaði Kristján Stefánsson, formaður skákdeildarinnar, keppendur nokkrum orðum og mærði skáklistina í hástert, sérstaka Friðrik og aðra meistara skákborðsins en eins minni spámenn sem tefla fyrst og fremst sér til ánægju og yndisauka, en líka fyrir fegurðina. Það væri súrt að þurfa að sætta sig við annað sætið hvort heldur væri í mótinu í heild eða einstökum skákum, en um það snerist baráttan nú eins og ævinlega.

Verðlaunahafarnir. Mynd: ESE

Boðið var upp á kaffi og kruðerí milli þess sem menn öttu kappi. Það var hinn glaðbeitti víkingur Ólafur Þórsson, sem fór með sigur af hólmi eftir harða baráttu við aðra efstu menn með 8 vinninga af 9 mögulegum. Gunnar Skarphéðinsson, varð annar með 7v. , Haraldur Haraldsson og Snorri Þór Sigurðsson í 3.-4. sæti með 6.5v., eftir það fór að teygjast úr lestinni. Finni Kr. Finnssyni voru veitt aukaverðlaun fyrir framlag hans og tryggð við skákina um áratugaskeið.

Hér að neðan má sjá myndskreytta mótstöflu með nánari úrslitum:

Myndskreyting: ESE

/ESE

- Auglýsing -