Hraðskákmeistarar taflfélaga: Taflfélag Reykjavíkur. Daði Ómarsson, Guðni Stefán, Omar Salama, Hluti Sigsteins, Ingvar Þór og Gúmmi Kja. Mynd: GB

Hraðskákkeppni taflfélaga 2019 fór fram um helgina, í Rimaskóla. Keppnin var, líkt og tvö síðustu ár, haldin af Skákdeild Fjölnis og var keppnin haldin í einu lagi og kláruð á einum degi.

Þessi keppni var fyrst haldin árið 1995 af þeim Hellismönnum Gunnari Björnssyni, Andra Áss og fleirum. Frá upphafi hefur þessi keppni haft á sér létt yfirbragð og menn aðallega teflt í henni upp á ánægjuna án þess að vera hugsa of mikið um úrslitin. Enda var það svo að eldra fyrirkomulagið, þar sem tvær og tvær sveitir mættust innbyrðis og tefldu tvöfalda umferð, bauð oft á tíðum upp á afar ójafnar viðureignir þar sem sterkari sveitin valtaði yfir andstæðinginn.

Á seinni stigum mættust svo sterkustu liðin og þá urðu oft spennandi viðureignir og tók undirritaður þátt í einni af þeim eftirminnilegri þegar sveit Skákfélags Hafnarfjarðar tefldi til úrslita gegn Taflfélagi Reykjavíkur árið 1999. Viðureignin fór fram í Dverg í Hafnarfirði, gríðarstóru og ljótu steinhúsi, sem hafði verið plantað í hjarta bæjarins og hýsti ýmiskonar starfsemi en var þyrnir í augum flestra Hafnfirðinga þangað til það var loksins rifið fyrir ári síðan. Viðureignin var mjög jöfn og spennandi og lögðu nokkrir áhorfendur leið sína í Dverg til að fylgjast með  herlegheitunum, þar á meðal stofnendur keppninnar, þeir Gunnar Björnsson og Andri Áss Grétarsson. TR-ingar byrjuðu betur en svo náðu SH menn vopnum sínum og hljóp töluverð spenna í keppnina, svo mikil að á einum tímapunkti sneri Ágúst Sindri, liðsmaður SH, sér að Gunnari og sagði: „Það er hlaupin einhver alvara í þetta, þú kannski tekur það að þér að vera skákstjóri það sem eftir er“. Gunnar skoraðist ekki undan heldur tók að sér skákstjórn, enda voru vanir klukkuberjarar og vandamálaleitendur, í báðum liðum þannig að allur var varinn góður. Ekki þurfti þó að koma til kasta Gunnars því keppnin gekk áfallalaust fyrir sig og öllum að óvörum tókst harðsnúnu liði okkar Hafnfirðinga að vinna sætan sigur gegn sterku liði Taflfélags Reykjavíkur.

10 árum síðar var ég svo heppinn að taka þátt í annarri eftirminnilegri úrslitaviðureign, þá með Helli og andstæðingurinn var Bolungarvík. Í þetta skipti var úrslitaviðureignin þó ekki eftirminnileg vegna úrslitanna heldur frekar vegna skemmtilegrar umgjarðar því keppnin fór fram í Bolungarvík, degi eftir að Landsliðsflokknum í skák lauk. Mikill uppgangur var hjá Taflfélagi Bolungarvíkur á þessum tíma því auk þess að halda Íslandsmótið í skák í Bolungarvík þá var úrslitaviðureignin í hraðskákinni haldin fyrir vestan og Íslandsmótið í hraðskák fór svo fram strax daginn eftir, þar sem Arnar Gunnarsson stóð uppi sem sigurvegari. Skemmst er frá því að segja að Taflfélag Bolungarvíkur vann léttan sigur í úrslitaviðureigninni gegn okkur Hellismönnum, þrátt fyrir að við reyndum að peppa okkur upp fyrir bardagann með því að horfa á ræðu Al Pacino úr Any given Sunday

Einnig er vert að minnast keppninnar árið 2003 þegar Hrókurinn vann hraðskákkeppnina í fyrsta og eina skiptið. Mikill metnaður var hjá Hróksmönnum því sjálfur Ivan Sokolov mætti í einhverjar lykilviðureignirnar og minnist ég þess að við í Helli tefldum gegn Sokolov og félögum þar sem þeir slógu okkur úr keppni en Helgi Ólafsson endaði þó á að vinna Sokolov í þeirra viðureign.

En að keppninni í ár. Við Fjölnismenn undirbjuggum mótið á hefðbundinn hátt, sem fólst m.a. í því að útvega skákstjóra. Því miður forfallaðist hann nokkrum dögum fyrir mót og ekki tókst að finna annan mann til að sjá um skákstjórnina. Var því úr að undirritaður og Helgi Árnason gerðum okkar besta til að láta hlutina ganga og fengum til þess hjálp úr ýmsum áttum og erum við þakklátir fyrir þá miklu hjálp sem við fengum.

Strax í upphafi var ljóst að Taflfélag Reykjavíkur mætti sterkt til leiks, leiddir af þeim Guðmundi Kjartanssyni og Ingvari Jóhannessyni á fyrstu tveimur borðunum. Eftir að þeir unnur a sveit Fjölnis 8,5-3,5 í þriðju umferð og svo Breiðablik/Bolungarvík 7,5-4,5 í fjórðu umferð var ljóst að ekkert myndi stöðva þá í áttina að enn einum hraðskáktitlinum. Fór svo að þeir sigldu sigrinum í höfn af miklu öryggi og hlutu 59,5 vinninga af 72 mögulegum og unnu þeir allar viðureignir sínar.

Silfurhafar úr Breiðablik, Bolungarvík og Reykjanesi: Stefphan, Hlíðar, Vignir (að borða), Halldór Grétar, Birkir Ísak og Arnar. Mynd: GB

Í öðru sæti varð a sveit Breiðabliks/Bolungarvíkur/Reykjaness með 54,5 vinninga og í þriðja sæti varð a sveit Fjölnis með 53 vinningar. Í fjórða sætinu var svo sveit Skákfélags Akureyrar með 50 vinninga, en þeir hefðu hugsanlega endað ofar ef notast hefði verið við „match points“ í stað fjölda vinninga. Reyndar má alveg spyrja sig að því hvort það sé ekki réttari leið og munum við skoða það fyrir næsta ár.

Kampakátir Fjölnismenn. Tómas, Dagur Andri, Sigurbjörn, Erlingur og Helgi Árnason. Gunnar Björnsson tók myndina.

Keppnin fór mjög vel fram og urðu engin stór deilumál. Eitthvað var um að menn léku ólöglegum leik og þurfti þá að bæta við mínútu á klukkuna (það er gert með því að halda miðjutakkanum inni í ca. 3 sek. og svo nota takkann til hægri til að fara á „réttan stað“ og loks nota plústakkann til að bæta við mínútu).

Af áhugaverðum frammistöðum einstaklinga má nefna að 7 skákmenn bæta sig um 60 stig eða meira í mótinu. Sá sem hækkar mest er Birkir Ísak hjá Breiðablik, Bolungarvík en hann hækkar um heil 97 stig fyrir frammistöðu sína. Þeir Davíð Stefánsson, Gauti Páll Jónsson, Haraldur Haraldsson, Stefán Bergsson, Sigurður Heiðar Höskuldsson og Halldór Ingi Kárason voru líka í +60 stiga hópnum og þar skammt undan kom Páll Sigurðsson með 52 stig í plús.

Landsliðmaðurinn Guðmundur Kjartansson teflir við stjörnulögfræðinginn nýgifta Halldór Brynjar. Mynd: HÁ.

Þegar horft er til vinningafjölda þá var Vignir Vatnar með flesta vinninga, 11,5/14 og Daði Ómarsson, Guðni Stefán, Erlingur Þorsteinsson og Símon Þórhallsson voru skammt undan með 11 vinninga. Aðrir sem náðu 10 vinningum eða meira voru Ingvar Þór, Hlíðar Þór, Halldór Grétar, Stefán Bergsson, Haraldur Haraldsson og Ögmundur Kristinsson og var sá síðastnefndi raunar sá eini sem fékk 10,5 vinninga úr skákunum 14.

Landsliðsmaðurinn Dagur Ragnarsson ásamt mótshaldarnum og greinarhöfuninum. Mynd: HÁ.

Við Fjölnismenn höfum lagt áherslu á að halda léttri stemmningu í keppninni sem endurspeglast m.a. af nokkru frjálsræði þegar kemur að lánsmönnum. Þannig tefldi Gunnar Björnsson lokaumferðina fyrir Fjölni því Gunnar mætti gagngert til að ná einni umferð en svo óheppilega vildi til að Huginn fékk Skottu í þeirri umferð þannig að Gunnar var strax Sjanghæjaður í Fjölnissveitina. Eins tefldi Þór Valtýsson, gegnheill SA maður, með sveit Skákgengisins og endaði svo á því að vinna bíómiða í happdrættinu í mótslok.

Að lokum vill Skákdeild Fjölnis þakka öllum sem tóku þátt og lögðu hönd á plóginn og megi keppninni verða framhaldið um ókomin ár.

Lokastaðan á Chess-Results

Með skákkveðju, Sigurbjörn J. Björnsson – meðlimur í Skákdeild Fjölnis

- Auglýsing -