Sigurbjörn var ekki öskurfljótur að vinna Guðmund. Mynd: Heimasíða TR.

Það var gargandi stemming í félagsheimili TR þegar fimmta umferð Skákþings Reykjavíkur fór fram. Fide-meistarinn Sigurbjörn Björnsson er efstur í mótinu með fullt hús. Hann vann alþjóðlega meistarann Guðmund Kjartansson í skrautlegri skák þar sem tímahrakið spilaði stóra rullu. Einbeiting var þvílík að veggirnir nötruðu. Vignir Vatnar Stefánsson lagði Davíð Kjartansson á öðru borði í tvísýnni skák í hollenskri vörn og Jóhann Ragnarsson vann Aron Þór Mai á því þriðja eftir fingurbrjót í byrjuninni hjá Aroni. Því fór svo að á efstu þremur borðunum vann sá stigalægri alltaf hinn stigahærri! Pétur Pálmi Harðarson vann Harald Baldursson og jafntefli varð niðurstaðan í skák Arnar Heiðarssonar og Eiríks Björnssonar. Á sjötta borði var svo bræðraslagur hvar Benedikt Briem vann Stephan eldri bróður sinn. Eins og áður hefur komið fram eru efstu sex borðin sýnd beinleiðis til skákáhugamanna, en það er aldrei að vita ef einhverjar stöðurnar rati á síður blaðanna, með  meiru skáktengdu!

Sex skákmenn eru í halarófu á eftir Sigurbirni með fjóra vinninga. Reyndar er búið að nefna þá alla hér að ofan, nema Júlíus Friðjónsson, sem tók yfirsetu í umferðinni eftir að hafa unnið tvö ungmenni. Júlíus er til alls líklegur, enda á miðjum viskualdrinum! Hann fær að spreyta sig með hvítu mönnunum gegn Sigurbirni Björnssyni annað kvöld, Guðmundur mætir Jóhanni Ragnarssyni og Blikarnir Vignir Vatnar og Benedikt Briem mætast á þriðja borði. Áhugaverð skák verður á fimmta borði þar sem þriðjudagsmótahaldararnir Gauti Páll og Eiríkur Björnsson mætast. Fyrst að þeir eru nefndir er ágætt að minna á það að atskákmótin sem vanalega eru á þriðjudögum eru þessa dagana á fimmtudögum vegna mikils mótahalds, nánar um það hér! Lengsta skák umferðarinnar var milli Iðunnar Helgadóttur og Kristjáns Dags Jónssonar. Þeirri skák lauk með skiptum hlut, en þau æfa bæði af kappi hjá TR. Annar ungur TR-ingur, Ingvar Wu Skarphéðinsson stóð sig vel og lagði Sigurð Frey Jónatansson sem er rúmum 150 stigum hærri. Pörun sjöttu umferðar, sem verður tefld annað kvöld, miðvikudaginn 22. janúar má sjá á chess-results.

Nú hefur Taflfélag Reykjavíkur verið árum saman til húsa í Faxafeni 12, þar sem margar magnaðar skákir hafa verið tefldar. Maður hugsar stundum með sér hvað veggirnir gætu sagt manni, kynnu þeir að tala. Því er ekki gott að svara, en eina leiðin er líklega að láta sjá sig, sperra eyrun, og þá er aldrei að vita hvort svar berist.

Af heimasíðu TR.

- Auglýsing -