Myndskreyting: ESE

Þau döpru tíðindi bárust fyrir viku síðan að Jón Víglundsson, bakarameistari, siglingakappi, söngvari og ástríðuskákmaður m.m., væri látinn 85 ára að aldri. Hann verður öllum þeim sem honum kynntust eftirminnilegur.

Jón hafði teflt sér til ánægju og yndisauka frá unga aldri. Hann var meðal öflugustu skákmanna Taflfélags Reykjavíkur á sjötta áratug síðustu aldar, meðfram stífu námi í bakaraiðn hjá Guðmundi Ágústssyni, bakara og skákmeistara.

Eftir það varð taflmennskan að víkja fyrir alvöru lífsins. Jón hóf fljótlega sinn eigin atvinnurekstur og stofnaði m.a. Árbæjarbakarí sem hann rak un árabil eða þar til hann varð fyrir alvarlegu áfalli fyrir um 20 árum sem skerti skammtímaminni hans.

Eftir að farsælum starfs- og siglingaferli lauk, var það taflmennskan sem átti hug hans allan. Hann var allra öldunga ötulastur við að tefla sér til afþreyingar og yndis síðustu tvo áratugina, stundum oft í viku. Fór iðulega létt með að taka menn „í bakaríið“ í veltefldum sóknarskákum hvort heldur var í RIDDARANUM; KR; ÁSUM-FEB; KORPÚLFUM; og GALLERÝ SKÁK hér áður fyrr.

Heilabrot voru honum holl æfing og sannkölluð heilsubót og gleði. Það háði honum ekki við skákborðið þó minnið brygðist honum stundum varðandi úrslitin. Var allra manna háttvísastur við skákborðið þótt harðsnúinn keppnismaður væri og hefði marga fjöruna sopið bæði til sjós og lands. Bauð gjarnan jafntefli í stað þessa að slá menn niður á tíma þegar staðan bauð upp á það.

Genginn er gegn og svipmikill maður sem mikil eftirsjón er að. Sannur ljúflingur og drengur góður. Blessuð sé minning hans.

ESE

- Auglýsing -