Karl Gauti Hjaltason hefur flutt þingsályktunartillögu um skákkennslu í skólum. Alls eru á tillögunni 14 flutningsmenn eða nærri fjórðungur þingmanna úr fimm þingflokkum!

Tillagan hljómar svo:

Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að kanna hvort tilefni sé til þess að skákkennsla verði hluti af aðalnámskrá grunnskólanna. Ráðherra hafi samráð við Kennarasamband Íslands, Skáksamband Íslands, Skákskóla Íslands, Skákakademíu Reykjavíkur og eftir atvikum aðra til að kanna hvort tilefni sé til sem og möguleiki á að innleiða reglulega skákkennslu í grunnskólum. Ráðherra upplýsi Alþingi um framvindu málsins á vorþingi 2021.

Tillöguna ásamt greinargerð má finna í heild sinni á vef Alþingis.

Skákkennsla í grunnskólum. Hef lagt fram tillögu til þingsályktunar með stuðningi 13 þingmanna úr fjórum þingflokkum um…

Posted by Karl Gauti Hjaltason on Fimmtudagur, 29. október 2020

Í greinargerðinni segir meðal annars:

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra hefur verið ötull talsmaður þess að efla skuli skákkennslu í skólum og á fundi með forseta Alþjóðaskáksambandsins í apríl 2019 sagði hún: „Skákkennsla og skákiðkun í skólum er jákvæð og sóknarfæri í að efla hana. Það er almennur velvilji gagnvart skákinni innan skólasamfélagsins og við Íslendingar höfum átt velgengni að fagna á vettvangi hennar. Ég fagna því ábendingum og framtaki skákáhugafólks sem vill veg hennar sem mestan. Skákin er skemmtileg, hún er leikur sem þjálfar hæfni sem við viljum sannarlega leggja rækt við í menntakerfinu svo sem seiglu, greiningarhæfni og úrræðagæði.“ Orð ráðherrans falla vel að niðurstöðum framangreindrar skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá 2013.
    Síðustu ár hefur skákkennsla náð sterkri fótfestu í fjölda grunnskóla en hún fer fram á mismunandi hátt. Flutningsmenn telja að til mikilla hagsbóta væri að setja skák á aðalnámskrá grunnskólanna, ekki síst með áherslu á yngsta skólastigið, í því skyni að efla góða eiginleika nemenda, nota hana sem tæki til að skapa góðan bekkjaranda og gefa nemendum færi á að blómstra án takmarkana. Til þess að slík innleiðing gefist sem best þarf ákveðinn undirbúningur að fara fram og mælast flutningsmenn til þess að ráðherra hafi samráð við Kennarasamband Íslands auk hinna ýmsu skáksamtaka sem hafa annast skákkennslu meðal ungra nemenda undanfarin ár.
    Í framangreindri skýrslu nefndar um eflingu skákkennslu í skólum kom fram mikill áhugi skólastjórnenda á að taka þátt í tilraunaverkefni um innleiðingu skákkennslu og færð sannfærandi rök fyrir því að skákkennsla skyldi tekin upp í skólum sem hluti af fastri stundaskrá grunnskólanna. Skáksambandið hefur staðið fyrir kennaranámskeiðum, t.d. nú nýverið í tengslum við skákhátíð á Selfossi þar sem kennari var Jesper Hall, formaður kennslunefndar Evrópska skáksambandsins. Það ætti því að vera einfalt að sækja þekkingu og reynslu til að standa að innleiðingu skákkennslu í grunnskólum.
    Skák hefur verið innleidd í aðalnámskrá nokkurra ríkja og 15. mars 2012 samþykkti Evrópuþingið yfirlýsingu þess efnis að aðildarríki Evrópusambandsins skyldu innleiða skákkennslu í menntakerfi landanna. Í yfirlýsingunni kemur fram að skák sé aðgengilegur leikur fyrir börn óháð félagslegri stöðu sem geti aukið félagsfærni þeirra og dregið úr mismunun. Þá hafi skák góð áhrif á einbeitingu, þolinmæði, þrautseigju, sköpunargleði, innsæi, minni og rökhugsun óháð aldri barna.
    Ljóst er að mikill einhugur ríkir meðal almennings og innan skólakerfisins um jákvæð áhrif skákiðkunar á nemendur og telja því flutningsmenn að kanna skuli hvort tilefni sé til að auka vægi skákkennslu með því að innleiða hana í aðalnámskrá grunnskólanna.

 

- Auglýsing -