Teflt er við frábærar aðstæður í Landsbankanum. Mynd: GB

Íslandsbikarinn hófst í dag en teflt er í Landsbankanum, Austurstræti. Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, setti mótið og lék fyrsta leikinn fyrir Vigni Vatnar Stefánsson á móti Hjörvari Steini Grétarssyni.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, lék fyrsta leikinn fyrir Vigni gegn Hjörvari. Mynd: ÞS.

Mótið er útsláttarmót. Tefldar tvær kappskákir með fullum umhugsunartíma. Verði niðurstaðan 1-1 verður teflt til þrautar með skemmri umhugsunartíma. Svo fór að allar skákir dagsins enduðu með hreinum úrslitum. Þeir sem töpuðu í dag þurfa því nauðsynlega að vinna á morgun til að jafna metin og knýja fram framlengingu sem fram fer á mánudaginn.

Hjálp bankastjórans, dugði Vigni skammt á móti Hjörvari sem var fyrstur að vinna sína skák.

Hannes vann Braga eftir kraftmikla taflmennsku. Mynd: GB

Hannes Hlífar Stefánsson, þrettánfaldur Íslandsmeistari, vann sannfærandi sigur á Braga Þorfinnssyni eftir að hafa fórnað manni fyrir sókn.

Jóhann mátaði Helga. Mynd: GB

Jóhann Hjartarson mátaði Helga Áss Grétarssyni í fjörugri skák.

Guðmundur Kjartansson lagði Margeir Pétursson að velli, að loknu hróksendatafli.

Seinni kappskákin hefst á morgun kl. 14. Má gera ráð fyrir að hart verði barist enda þurfa taparar dagsins allir nauðsynlega á sigri að halda.

Bein lýsing hefst um kl. 15.

- Auglýsing -