Erfiður Wesley So hefur átt í fullu tré við Magnús Carlsen undanfarið. — Morgunblaðið/Chess.24.com

Ef allt fer að óskum fer heimsbikarmót FIDE fram á eyjunni Mön í október nk. [Athugasemd ritstjóra: Heimsbikarmótið er sett á dagskrá í Sochi í Rússland, júlí-ágúst] og einn íslenskur skákmaður fær þátttökurétt. SÍ hefur ákveðið að efna til keppni um sætið sem nefnist Íslandsbikarinn og verður með útsláttarfyrirkomulagi. Keppnin hefst þann 6. mars nk. Þeir átta skákmenn sem hafa gefið kost á sér til þátttöku eru Hjörvar Steinn Grétarsson, Hannes Hlífar Stefánsson, Jóhann Hjartarson, Guðmundur Kjartansson, Margeir Pétursson, Helgi Áss Grétarsson, Bragi Þorfinnsson og Vignir Vatnar Stefánsson. Tefldar verða tvær kappskákir með venjulegum umhugsunartíma og ef jafnt verður taka við skákir með styttri umhugsunartíma.

Áskorendamótið heldur áfram – HM-einvígið verður í Dubai

FIDE hefur ákveðið að áskorendamótið, sem frestað var í miðjum klíðum vegna Covid-faraldursins, skuli vera til lykta leitt á sama stað í Yekaterinburg í Rússlandi og hefst seinni hlutinn þann 19. apríl nk. Átta keppendur hófu leikinn og eftir fyrri helminginn var staðan þessi: 1.-2. Nepomniachtchi og Vachier-Lagrave 4 ½ v . (af 7) 3. – 6. Caruana, Giri, Grischuk og Wang Hao 3½ v. 7. – 8. Ding Liren og Alekseenko 2½. v.

Líklegast er að annar efstu manna öðlist réttinn til að skora á heimsmeistarann en allir keppendur eiga enn þá möguleika.

Heimsmeistaraeinvígið fer svo fram í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og hefst þann 24. nóvember nk.

Þrándur í götu

Færeyingurinn Þrándur í götu hefur víða komið við en á þeim skákmótum sem Magnús Carlsen tekur þátt þessa dagana birtist hann iðulega í líki Wesley So. Þessi pollrólegi Filippseyingur sem fluttist til Bandaríkjanna fyrir nokkrum árum hefur á stuttu tímabili í tvígang „stolið“ sigrinum frá Magnúsi á netskákmótum og einnig má minna á stórsigur hans í úrslitaeinvígi þeirra á HM í „Fischer random“. Á Euro-rapid-mótinu á dögunum sem er hluti nýrrar mótaraðar á netinu komust þeir báðir í gegnum undanrásir og síðan í úrslitaeinvígið. Magnús komst yfir fyrri daginn, 2:1, en í fjórðu skákinni jafnaði So metin og vann síðan einvígi þeirra seinni daginn, 2½ : 1½. Það verður fróðlegt að sjá viðureignir þeirra á næstunni en Magnús virðist í einhverri lægð þessa daga:

Opera Euro rapid 2021, 4. skák:

Wesley So – Magnús Carlsen

Ítalskur leikur

1 e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 Bc5 4. c3 Rf6 5. d4 exd4 6. e5 d5 7. Bb5 Re4 8. cxd4 Bb6

So hefur valið eldgamalt afbrigði ítalska leiksleiksins sem löngum hefur verið talið bitlaust. En það er lengi von á einum.

9. Rc3 O-O 10. Be3 Bg4 11. h3 Bh5 12. Dc2 Bg6 13. Db3 Re7 14. O-O c6 15. Bd3 Rf5 16. Dc2 Rxc3 17. bxc3 Rxe3?!

„Vélarnar“ vilja bíða með þennan leik og kjósa frekar 17. .. Dd7.

18. fxe3 Bxd3 19. Dxd3 f6 20. c4 Bc7?

Nú byrjar að halla undan fæti. Best var 20. … dxc4 21. Dxc4+ Dd5 o.s.frv.

21. cxd5 Dxd5 22. exf6

22. … gxf6

Auðvitað vissi hann um veikinguna en 22. .. Hxf6 23. e4 og 24. e5 leit heldur ekki vel út.

23. e4 Dd7 24. Had1 Had8 25. Rh4 Kh8 26. Rf5 c5 27. d5 Be5 28. Hb1 b6 29. Dc4 Hfe8 30. Kh1 Bd4 31. Hf4

 

 

 

31. … Hxe4

Reynir að losa um sig en dugar skammt. Kóngsstaðan er allt of veik.

32. Hxe4 Dxf5 33. Hbe1 Hxd5 34. Hg4 h5 35. He8+ Kh7 36. He7+ Kh8

 

 

 

37. Dc1!

– Hnitmiðaður leikur. Svartur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 27. febrúar 2021.

- Auglýsing -