Hjörvar Steinn Grétarsson vann Íslandsbikarinn – undankeppni um sæti Íslands á Heimsbikarmótinu í skák sem er á dagskrá í Sochi í Rússlandi í júlí-ágúst nk. Hjörvar vann síðari skákina gegn Hannesi Hlífari Stefánssyni á fremur sannfærandi hátt og því samtals 2-0. Hjörvar tefldi best allra á mótinu og var sigur hans afar verðskuldaður. Hann vann 5 af 6 kappskákum sem hann tefldi og báðar atskákirnar. Alls 7 vinningar af 8 mögulegum.

Á mótinu voru tefldar 14 kappskákir og lauk engri þeirra með jafntefli! Tefldar voru átta atskákir og aðeins einni þeirra lauk með jafntefli. Aðeins einni skák af 22 lauk því með jafntefli.

Lofar sannarlega góðum um Íslandsmótið í skák (Skáþing Íslands) sem hefst 29. mars nk. í Kópavogi. Meira um það mót á morgun sem og Íslandsmót kvenna sem teflt verður samhliða við frábærar aðstæður í Kársnesi.

Omar Salama sá um skákstjórn á mótinu og gerði það frábærlega. Björn Ívar Karlsson og Ingvar Þór Jóhannesson sáu um skákskýringar og venju samkvæmt stóðu þeir sig framúrskarandi vel.

Skáksambandið mun að sjálfsögðu verða einnig með beinar lýsingar á Skákþinginu enda komnar til að vera á stærri mótum. Sú nýjung var tekin upp á þessu að hafa myndavélar á keppendur sem sannarlega lífgaði upp á útsendingar. Tölvulistinn fær þakkir fyrir þeirra aðstoð. Landsbankinn fær sérstakar þakkir fyrir ljá sitt frábæra húsnæði, þar sem afar vel fór um keppendur, undir mótið.

- Auglýsing -